Spurt og svarað

06. ágúst 2013

Flogaveiki og brjóstagjöf

Hæhæ og takk fyrir fábæran vef.
Ég er flogaveik og er á lyfjum, Trileptal ( 300mg x2 á dag) og er ólétt af mínu fyrsta barni. Mig langaði bara að athuga hvort það væri í lagi að hafa barn á brjósti þar sem lyfin fara eitthvað í mjólkina?
Takk fyrir :)


Sæl vertu og til hamingju með þungunina!
Það er vel þekkt að konur hafi börn sín á brjósti þrátt fyrir að þær séu á einhverskonar lyfjameðferð, það er hinsvegar mjög mismunandi eftir lyfjum hvort og þá hvaða áhrif þau hafa á barnið.
Nú veit ég ekki hvort þú sért búin að fara í mæðraskoðun, hvar þú ert í mæðravernd eða hve langt þú ert gengin en ég vil endilega benda þér á að vegna flogaveikinnar ættir þú að vera í áhættumæðravernd á Landspítalanum. Ef þú ert ekki búin að fara í fyrstu komu ættir þú að hafa samband á göngudeild mæðraverndar og fá tíma í fyrstu komu. Í þeirri skoðun færð þú góða fræðslu vegna þinnar flogaveiki og lyfjameðferðar. Auk þess sem það verður gert plan fyrir meðgöngu, fæðingu og sængurlegu.
Þegar kona er í áhættumæðravernd á LSH er meðferð konunnar í höndum fæðingarlækna, ljósmæðra og annarra sérfræðinga t.d. taugalækna og efnaskiptalækna.
Kona sem er með sjúkdóm sem þarfnast einhverskonar lyfjameðferðar að staðaldri ætti alltaf að ráðfæra sig við sinn sérfræðilækni áður en hún verður þunguð svo hægt sé að skipuleggja meðferð á meðgöngu.
Gangi þér vel

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. ágúst 2013

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.