Fór að leka broddur á 23 viku

30.07.2012
Sælar og takk fyrir frábæran vef!
 Þannig er mál með vexti að ég geng með mitt annað barn. Á núna 3,5 árs gamlan strák sem var á brjósti í 10 mánuði þrátt fyrir ýmsa erfiðleika. Ég byrjaði á því að fá mjög stór sár og sýkingu í þau en eftir 6 vikur voru þau horfin, fyrir utan örin. En mjólkin lak í stríðum straumum allan þann tíma sem ég var með drenginn á brjósti. Ég notaði lansinoh brjóstapúða 2-3 í einu á hvort brjóst og þurfti að skipta á 20 mín fresti ef ég vildi ekki blotna í gegn. Á fyrri meðgöngu kom broddurinn líka snemma og lak mikið á nóttunni. Þetta er að gerast aftur. Eru þetta ekki vísbendingar um að ég verði svona hrikalega lausmjólka núna líka? Síðan er eitt annað sem ég hef verið að spá í. Hvað þýðir það þegar legbotninn er hár? Hann var 28 tæpir þegar ég var gengin 24 vikur en ljósan sagði að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa. Ég fékk samt enga frekari útskýringu?
Með þökkum, Mjólkurbúið.

Sæl og blessuð Mjólkurbú!
Miðað við lýsinguna þína á miklum mjólkurleka þá ertu með víða mjólkurganga. Það þýðir bara að mjólkin rennur mjög auðveldlega. Það breytist ekkert við fleiri börn. En það þýðir að þú þarft að læra aðferðir til að stoppa allan leka og til að hægja á mjólkurflæði. Þú átt ekki að sætta þig við þau óþægindi sem fylgja þessu. Varðandi byrjun síðustu brjóstagjafar þá er heldur ekki ásættanlegt að vera með sár í 6 vikur. Þú getur fengið viðtal hjá brjóstagjafaráðgjafaá meðgöngu og lært að koma í veg fyrir sáramyndun. Og ef þú færð sár þarftu að leita þér hjálpar því sár taka bara örfáa daga að jafna sig ef réttum aðferðum er beitt. Að síðustu varðandi legbotnin þá er verið að mæla hæð legsins frá lífbeini. Þetta er frekar ónákvæm mæling og miðast við hverja konu fyrir sig þannig að þér er allveg óhætt að trúa ljósmóður sem segir að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur.
Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. júlí 2012.