Spurt og svarað

07. september 2011

Formjólk og stuttar gjafir

Sæl!

Ég er með eina 3ja vikna. Ég er að forvitnast um tvennt. Stelpan mín drekkur oft mjög stutt, jafnvel í 10 mín. en mjög hratt og ég heyri hana kyngja. Síðan ýtir hún sér frá og vill ekki meira. Ég reyni að láta hana ropa og legg hana aftur á brjóstið. Ég hef lesið að brjóstin aðlagist þessu. Hún er að þyngjast vel, sefur vel og er mjög vær. Ég er samt að hafa áhyggjur að hún sé ekki að fá nóg af fituríkri mjólk. Hvað þarf að líða langt á milli gjafa þannig að maður sé komin á "byrjendareit" þannig að formjólkin sé komin aftur í sama mæli? Hef heyrt 20 mín. 30 mín. og jafnvel 1 klst. Ég var að lesa mér til um hægðir brjóstabarna og las þar að ef ungabörn kúka svona "froðu" þá þýði það að þau séu ekki að fá nóg af fituríku mjólkinni. Þá eigi maður að leggja þau aftur á það brjóst sem maður endaði á síðast. En ef það eru liðnir t.d. 2-3 tímar frá seinustu gjöf er þá ekki tilgangslaust að setja þau aftur á sama brjóstið til að fá fituríka mjólk? Vonandi fæ ég einhver svör.

 


Sæl og blessuð!

Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur ef barnið er að drekka nægilega oft, er vært og þyngist. Það er einstaklingsbundið hve hratt þau drekka. Þitt barn er greinilega fljótt að drekka og það mun væntanlega fylgja því áfram. Það er alveg rétt hjá þér að brjóstin aðlagast því og veita næga fituríka mjólk. Grænleitar, froðukenndar og slímugar hægðir eru aðeins eitt af einkennum formjólkurofeldis en alls ekki óyggjandi merki. Jú það er nákvæmlega rétt hjá þér að eftir 1-2 klst. er alveg tilgangslaust að leggja aftur á sama brjóstið ef maður er að hugsa um fituríku mjólkina. Barnið fær þá aftur formjólk og þar að auki stuðlar maður að minnkandi mjólkurframleiðslu því það vantar örvunina á hitt brjóstið. Hæg framleiðsla formjólkur byrjar um leið og síðustu gjöf er lokið.

Gangi þér vel áfram.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. september 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.