Spurt og svarað

29. október 2006

Formjólkin

Komið þið sælar og takk fyrir frábæran vef!

Mig langar að fá svör við vangaveltum mínum með formjólkina. Þegar ég legg strákinn minn á brjóst þá fæ ég losunarviðbragðið og hann drekkur ágætlega.  Ég hef vanið hann á fá bara annað brjóstið í hverri gjöf.  Áður þá kom losunarviðbragðið aftur og aftur á meðan á gjöfinni stóð en núna þarf ég stundum að gera hlé þegar hann pirrast yfir því að fá ekki meira (ekkert frekara losunarviðbragð eftir það fyrsta) og legg hann aftur sama brjóstið kannski 15-20 mínútum seinna.  Þá á ég auðveldara með að fá losunarviðbragðið aftur. Það sem ég er að velta fyrir mér er það hvort að formjólkin streymi fram aftur þegar ég legg hann á brjóstið í seinna skiptið eða heldur næringarríka mjólkin áfram að flæða?  Er það ekki annars þannig þegar maður er með barnið á brjósti og fær losunarviðbragðið aftur og aftur í sömu gjöf að brjóstið er að framleiða næringarríku mjólkina? Ég hef einstaka sinnum lagt hann á hitt brjóstið þegar mér bara hreinlega tekst ekki af fá meiri losun úr hinu brjóstinu og finnst ég tóm sem er ekki í samræmi við það sem þið segið um að brjóstið tæmist aldrei.  Á miklu auðveldara með að fá aftur losunarviðbragð ef ég legg hann á hitt brjóstið en er að þrjóskast með að gefa honum bara annað brjóstið í hverri gjöf svo hann fái næringarríku mjólkina en ekki of mikla formjólk. Sem sagt, flæðir formjólkin bara fyrst eða framleiðist hún aftur og aftur við hvert losunarviðbragð þó svo að það sé í sömu gjöfinni eða 15-20 mínútum seinna á sama brjóstinu?

Bestu kveðjur, Guðrún & vangavelturnar.Sæl og blessuð Guðrún.

Formjólk byrjar að framleiðast eftir að gjöf lýkur. Því lengra sem líður frá gjöfinni því meiri formjólk er um að ræða. Þ.e.a.s. það er hærra hlutfall af gjöfinni formjólk ef langt er liðið frá síðustu gjöf. Þannig að sem svar við spurningu þinni þá getur barnið ekki fengið aftur og aftur formjólk í gjöfinni. Ef þú gerir hins vegar 20 mín. hlé á gjöfinni er komin þó nokkur formjólk aftur. Ekki samt auðvitað eins hátt hlutfall formjólkur og ef nokkrar klukkustundir líða á milli gjafa. Svo má auðvitað ekki gera lítið úr formjólkinni. Hennar hlutverk er líka mikilvægt en það er fyrst og fremst a slökkva þorsta barnsins. Losunarviðbragð er svo náttúrlega alveg óskylt fyrirbæri. Þegar frá líður fæðingunni minnkar eða hættir tilfinningin fyrir losunarviðbragðinu. Það gerir ekkert til. Það er samt til staðar en maður finnur það bara ekki. Mjólkin framleiðist jafnt og þétt svo lengi sem barnið sýgur án tillits til losunarviðbragðsins. Sem sagt ekki vera að velta því fyrir þér hvort þú finnur losunarviðbragð eða ekki. Einbeittu þér bara að því að slaka það vel á í gjöfinni að flæðið sé auðvelt.   

Vona að þetta svari spurningum þínum.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. október 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.