Spurt og svarað

03. apríl 2005

Formjólkurofeldi?

Sæl og blessuð og takk fyrir mjög fræðandi vef !

Ég hef aðeins heyrt minst á formjólkurofeldi og ég er að spá í hvort það sé að angra son minn. Hann fæddist stór og er stór og stæðilegur. Núna er hann rúmlega 3ja mánað og hefur þyngst mjög vel (rúmlega 2,5 kg frá fæðingu). Ég get ekki kvartað yfir svefninum hans því alla jafna sefur
hann mjög vel (einn 3-4 tíma dúr á morgnana, 2-4 tíma dúr eftir hádegið, fer að sofa milli 20-21 á kvöldin og sefur til svona 7-8 á morgnana og vaknar einu sinnni til tvisvar til að drekka). En þegar hann er vakandi þá er hann yfirleitt mjög pirraður, hann er vælin og vil helst bara drekka.
Hann prumpar mjög mikið og eins er að koma svolítið upp úr honum. Það var alltaf þannig að hann kúkaði svona einu sinni í viku (karrígulum linum kúk) en núna undanfarið (2-3 vikur) er hann farin að kúka mun örar (stundum oft á dag) og það er frekar froðukennt og þunnt. Ég virðist vera
mjög lausmjólka og það lekur töluvert úr þeim bæði á nótunni og daginn. Hann fær aldrei meira en annað brjóstið í hverri gjöf og oft á tíðum þá er hann lengi að drekka (á meðna sit ég kannski og horfi á heilan þátt í sjónvarpinu). Getur þessi pirringur stafað af formjólkurofeldi og hvað get ég gert?

........................................................................

Sæl og blessuð strákamamma.

Nei ég get ekki sagt að mér finnist þetta hljóma eins og týpískt formjólkurofeldi. Fyrir það fyrsta er hann að sofa vel og hefur þyngst vel. Þessi pirringur í honum gæti stafað af ýmsum orsökum. Þörf fyrir margar gjafir? Þörf fyrir mikla nánd og húðsnertingu?

Þú talar um að þú sért lausmjólka sem ég túlka sem gott losunarviðbragð. Stundum gleypa börn mikið loft í þeim fasa og fá þá frekar vindgang. Prófaðu að láta hann ropa strax eftir 1 mínútu gjöf og vittu hvort ekki „raðist“ betur í hann mjólkin. Ég myndi ekkert vera að spá í hægðirnar í þínum sporum. Þær virðast vera ósköp eðlilega óreglulegar samkvæmt lýsingu.

Þú talar líka um leka úr brjóstum. Hann myndi ég ráðleggja þér að stoppa alltaf þegar þú getur. Notaðu dyrabjölluaðferðina þegar þú kemur því við en innlegg á nóttunni.

Það er gott að þú gefur 1 brjóst í gjöf en það er líka allt í lagi að skipta um brjóst ef hann er búinn að sjúga vel 1 brjóst í 30 mínútur eða svo. Og svo bara slappa af og horfa á góða þætti.

Með bestu brjóstagjafakveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. apríl 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.