Framboð og eftirspurn

07.08.2005

Sælar ljósmæður.

Mig langaði bara að forvitnast hvenær brjóstagjöfin verður "framboð og eftirspurn".  Og eitt annað - ég er með einn tæplega þriggja mánaða og síðustu daga hefur hann farið að haga sér "skringilega" á hægra brjóstinu.  Hann drekkur í smástund en fer svo að taka tvo til þrjá sopa og klemmir svo vörunum um geirvörtuna og "rífur sig af".....og heldur þessu áfram í dálítinn tíma og verður pirraður.  Hvað er í gangi?  Hann er ekki svona með vinstra brjóstið.

Kveðja,
tveggja barna móðir.

.........................................

Sæl og blessuð tveggja barna móðir.

Reglan um framboð og eftirspurn virkjast við fystu brjóstagjöf barnsins eftir fæðingu. Fyrstu 2-3 dagana framleiða brjóstin brodd í litlu magni en með öllum næringarefnum sem barnið þarf. Þá þola nýrun ekki mikið magn vökva svo það hentar fullkomlega. Eftir 3ja dag eykst framleiðslan í takt við það sem barnið biður um. Alltaf uppfrá því eykst mjólkurmagn eða minnkar nákvæmlega eftir þörfum barnsins svo framarlega að engir utanaðkomandi þættir trufli.
Eins og ég hef áður nefnt er 3ja mánaða aldurinn svolítil tímamót hjá börnum. Það er mjög algengt að mæður merki breytingu á háttum eða hegðun barnsins á þeim tíma. Oft eru þetta einungis merki eðlilegs þroska en stundum er að byrja að örla á einhverjum vandamálum. Merkin sem barnið sendir frá sér til að láta vita hvað það vill og hvernig því líður breytast oft á þessum tíma svo mæður þurfa að endurprógrammera sig. Svo er talað um að fyrstu 3 mánuðina ljúki barn gjöf með því að sofna en eftir það með því að rífa sig af brjósti.
Á þessum aldri koma líka oft fram einkenni um of hratt losunarviðbragð. Þau lýsa sér gjarnan á sama hátt og þú ert að lýsa en það er sjaldan að það sé aðeins öðru megin. Það myndi þó ekki kosta þig neitt að prófa í 2-3 daga að gera flæðið hægra megin hægara í byrjun gjafa með því að klemma brjóstið saman eins og ég hef lýst hér á síðunni oft áður. Prófaðu líka hvort það er betra að gefa útafliggjandi.
Með von um 6 mánaða eingöngu brjóstagjöf.

Katrín brjóstagjafaráðgjafi