Framboð og eftirspurn

21.08.2007

Heil og sæl!

Mig langar að forvitnast um upphaf brjóstagjafar. Þannig er mál með vexti að ég er að fara að ganga í gegnum fjórðu brjóstagjöfina og í upphafi hverrar brjóstagjafar hef ég alltaf fengið MJÖG MIKLA stálma og ÞVÍLÍKA mjólkurframleiðslu. Hef þurft að ganga í gegnum stíflur og hvaðeina og er bara veik fyrstu 3 vikurnar.Það sem ég er að velta fyrir mér er eitthvað sem ég get gert svo ég geti minnkað þessa ofsaframleiðslu fyrstu dagana eða er þetta bara einsdæmi. Ég var að heyra að eftir að barnið komi í heiminn þá ætti ég að prófa að gefa bara annað brjóstið en ekki að örva bæði strax í upphafi er eitthvað til í því.

Með von um góð svör, Stebba.


Sæl og blessuð Stebba!

Það er mikilvægt að taka svona vandamál föstum tökum alveg frá fyrstu mínútu. Það er rétt að það hjálpar að örva bara annað brjóstið í hverri gjöf. Svo getur hjálpað eftir 1 eða 2 daga að fara að gefa sama brjóstið 2svar í röð og svo jafnvel 3svar í röð. Svo getur hjálpað að hafa þétt um brjóstin alveg frá upphafi og vera svo tilbúin með köldu bakstrana á 3ja degi og vera óspör á þá. Þeir eiga að vera vel kaldir, ná utan um allt brjóstið, settir eftir gjöf og fá að virka 15-20 mín. Það eru reyndar til ýms fleiri ráð en þetta er ágætt til að byrja með.

Gangi þér allt í haginn.    


Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. ágúst 2007.