Frosin brjóstamjólk

11.09.2011

Takk fyrir frábæran vef!

 Mig langar að spyrja ykkur um geymslu á brjóstamjólk. Þegar mjólk er búin að vera í frystihólfi ísskáps í tvær vikur má þá færa hana í frystikistu til að geyma hana lengur? Eða er mjólk sem hefur verið í frystihólfi ísskáps "útrunnin" eftir 2 vikur?

 


Sæl og blessuð!

Þú ert væntanlega að tala um frystihólf inni í ísskápnum. Ef frystihólfið hefur sér hurð og mjólkin hefur verið innst í hólfinu þá má hún vera í 3 vikur. Að þeim tíma liðnum sem talað er um geymsluþol verðum við að líta svo á að mjólkin geymist ekki lengur og henda henni.

Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. september 2011.