Frunsur og brjóstagjöf

11.11.2007

Sælar ljósmæður !

Ég vil nú byrja á að þakka ykkur kærlega fyrir þennan frábæra vef! Hann hefur virkilega stutt við bakið á konum í gegnum þetta ferli sem meðganga, fæðing og brjóstagjöf er! Ég er ein af þeim sem er gjörn á að fá frunsur og nú er ég með barn á brjósti og langar því að fá svör við nokkrum spurningum.

  • Hvernig er hægt að verjast því, eins og kostur er, að smita barnið sitt?
  • Eru einhverjar líkur á því að frunsur getir komið fram á brjóstum/geirvörtum?
  • Ef slíkt myndi gerast hvernig er best að bregðast við?
  • Og að lokum ef barn smitast hvernig kemur það fram og til hvaða ráðstafana þarf fólk að grípa  (leita læknis eða annað)?

Með fyrirfram þökk, Sjöfn.


Sæl og blessuð.

Yfirleitt þarf maður ekki að hafa áhyggjur af frunsum nema þegar eru frunsur á geirvörtum. Eins og þú kannski veist smita frunsur á vörum þegar útbrotin eru opin og vessandi. Það er því skynsamlegt að reyna að halda þeim í skefjum eins og maður getur. Nota frunsuáburði og byrja notkunina strax og finnst fyrir byrjunareinkennum. Svo er gott að reyna að forðast snertingu frunsu sem er í fullum blóma við barnið og þar með fara í kyssibindindi. Góður handþvottur er líka mikilvægur. Ef barnið er orðið 3 mánaðar gamalt eða meira getur það tekið veiruna en verður lítið sem ekkert veikt. Flestar mæður taka ekki einu sinni eftir því.  Ef frunsur koma á geirvörtur sem er mjög sjaldgæft er það yfirleitt talin ástæða til að hætta að láta barnið sjúga þar til útbrotin lokast. Brjóstið eða brjóstin eru þá mjólkuð á meðan og mjólkinni hent.

Vona að þetta skýri málin.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. nóvember 2007.