Fryst mjólk-skammtastærð

15.08.2014

Góðan dag!

Með miklum herkjum hefur mér tekist að mjólka smá aukamjólk og frysta til að eiga fyrir stöku bíóferð eða tónleika. Þar sem það hefur reynst afar erfitt að ná mjólkinni vil ég reyna að hafa rétt magn í frystipokunum svo það fari ekki mjólk til spillis. Lansinoh frystipokarnir sýna allt upp í 180 ml. og Medela pelinn/pumpan sem ég er með sýnir upp í 150 ml. Hvað væri heppilegasta magnið til að frysta í hverjum poka til að leysa eina gjöf af hólmi? Takk.
Sæl og blessuð!

Yfirleitt er mælt með að frysta mjólk í litlum skömmtum. Þá er hægt að þíða 1 skammt og sjá hvort barnið er sátt eftir hann og þíða þá annan skammt ef svo er ekki. Þá má bæta við 3ja eða 4ða skammti ef þarf. Skammtastærðin fer svolítið eftir hve gamalt barnið er. Oftast er verið að tala um 50 ml. í skammti fyrir barn á fyrstu vikunum og mánuðunum. Eftir 5-6 mánuði er skammturinn kominn í 80-100 ml.

Vona að gangi vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. ágúst 2014.