Spurt og svarað

12. nóvember 2006

Fyrirburar og brjóstagjöf

Sæl og takk fyrir góðan vef, það hefur hjálpað mikið að geta lesið eldri fyrirspurnir og svör.

En ég þarf helst að fá svör við nokkrum spurningum sem hafa vaknað hjá mér síðustu vikur. Ég á tvíbura, strák og stelpu, sem eru nýkomnir heim af vökudeildinni, en þau fæddust eftir um 27 vikna meðgöngu. Þau fengu sýkingar eins og gengur,en drengurinn varð mun veikari og fékk einnig þennan króníska lungnasjúkdóm sem oft hrjáir fyrirbura. Systir hans var tilbúin til heimferðar löngu á undan honum og er virkilega spræk á allan hátt, afskaplega geðgóð og grætur örsjaldan, sem hjálpar mjög til þegar bróðir hennar er óvær! Ég mjólkaði mig þessar 12 vikur sem þau voru á vöku og það gekk þokkalega, stundum ansi erfitt en hafðist samt. Þau útskrifuðust í raun sem pelabörn af vökudeildinni, en hún var þó farin að taka upp undir heilar gjafir á brjósti síðustu dagana. Bróðir hennar aftur á móti var mjög latur að drekka, hvort sem það var af brjósti eða pela, pelagjöfin tók (og tekur enn) heila eilífð - upp undir klukkutíma. Á brjósti virtist hann aldrei ná neinu taki, og ef það gerðist þá sleppti hann jafnharðan aftur þegar mjólkin kom. Og náði aldrei taki aftur þrátt fyrir greinilega mikinn vilja og áhuga, bara hristi höfuðið til og endaði með því að verða mjög reiður og sár og gráta mikið. Ég prófaði mexíkanahattinn og þá virtist hann geta tekið eitthvað (frá 10 - 25ml) en varð greinilega mjög fljótt þreyttur. Og stundum vildi hann ekki sjá hann. Eftir að þau komu heim fyrir tæpum 2 vikum hefur þetta gengið mjög brösuglega með hann og svo komið að ég vík mér hálfvegis undan því að leggja hann á brjóstið því hann bara orgar á mig. En hann tekur reyndar líka svona rokur á pelann og þá er allt ómögulegt, þrátt fyrir að við reynum að gefa honum Minifom dropa á undan, skipta um pelatúttu og láta hann ropa reglulega - hann greinilega gleypir mikið loft. Hann er að öðru leyti ósköp vær, sefur vel og vaknar reglulega fyrir gjafir, en er stundum svolítið vælinn sem lagast nú yfirleitt ef hann fær að kúra hjá okkur - sem hann þá auðvitað fær.  systir hans er nær eingöngu á brjósti, fær stundum ábót (yfirleitt brjóstamjólk - ég átti orðið ágætan lager í frysti) á kvöldin. Hún tekur samt minna af brjósti en hún gerði af pela uppi á vöku, því hún vaknar oftar svöng - en þá bara legg ég hana á brjóstið. En ég er samhliða að mjólka mig líka fyrir drenginn. þetta getur orðið frekar strembið - ekki síst á næturnar - og ofan á það bætist óværðin og gráturinn í kringum gjafir. Kannski að taka fram að þau skipti sem það gengur þokkalega fyrir hann að drekka af brjósti þá er hann hálfsofandi eða vel upplagður, og hefur t.d. undanfarna daga gerst tvisvar til þrisvar yfir daginn og þá hefur hann haldið þetta út í svona 5 mínútur, en þá er eins og hann verði of þreyttur til að sjúga og kyngja. Í þau skipti sem allt hefur farið úrskeiðis hefur það bæði virst vera vegna þess að hann haldi ekki út að kyngja mjólkinni eða að það hefur ekki komið nógu fljótt mjólk þegar hann sýgur. Eins og lesa má út úr þessu þá er ég svolítið uppgefin, vil gjarna þó gera mitt besta og vantar góð ráð varðandi brjóstagjöfina. Á ég að halda áfram að leggja hann alltaf á? Eru líkur á því að þetta lagist og hann verði öflugri? En þegar það loksins gerist - að hann er orðinn nægilega sterkur til að drekka vel - er þá orðið of seint að færa hann yfir í það að verða brjóstabarn? Hann er 14 vikna, en rúm vika frá áætluðum fæðingardegi. Ég er ágætlega lausmjólka - en stundum síðla dags tekur lengri tíma fyrir losunarviðbragðið að koma. Einnig að taka það fram áð ég prófaði fingurgjöf, en hann var sko ekki sáttur við hana, alls ekki.

Með fyrirfram þökk, Tvíburamamma.


Sæl og blessuð!

Mikið ertu dugleg tvíburamamma! Ég veit af eingin raun að þetta er mikil vinna og álag. Ég held að það gott ráð hjá þér að leggja drenginn á brjóst líka. Ég held að eftir því sem hann stækkar þá nái hann betur að taka brjóstið. Farðu eftir þinni tilfinningu með hann, hvað hann er tilbúinn til. Stundum þarf að nota mexíkanahatt um tíma meðan fyrirburar eru að aðlagast að geirvörtunni og eru að læra að sjúga. Úr því að hann fæst til að sjúga brjóstið eitthvað, þá held ég að þetta komi til með að ganga þegar hann stækkar meira.

Gangi ykkur vel.

Bestu kveðjur,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. nóvember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.