Spurt og svarað

06. maí 2007

Fyrsti bitinn

Sælar ljósmæður!

Þið talið um að best sé ef mæður geti haft börn eingöngu á brjósti fyrstu sex mánuðina. Ég er búin að vera með barn á brjósti í næstum því sex mánuði. Ég hef heyrt að mæður í sumum öðrum löndum hafi börnin eingöngu á brjósti í lengur en sex mánuði.Ég vil bara gera það sem er best fyrir barnið. Ég hef þrjár spurningar:Hvað er allra best fyrir barnið að vera lengi engöngu á brjósti? Hvað er best að gefa barni að borða í fyrsta skiptið? Barnamatur í dós inniheldur stundum sykur og kúamjólk, er það ekki slæmt?

Kveðja, Melkorka.


Sæl og blessuð Melkorka.

Það er talið að um 6 mánaða aldurinn séu börn tilbúin til að fara að borða fasta fæðu. Sum eru tilbúin fyrr, önnur seinna eins og gengur. Um 6 mánaða aldurinn er líka ónæmiskerfið talið vera komið í gott horf þannig að lítil hætta er á að barnið bregðist illa við öllum breytingum. Almenna reglan t.d. hjá brjóstagjafaráðgjöfum er að ekkert liggi á að fara að gefa barninu aðra fæðu og að best sé að þau sýni sjálf áhuga og getu til að borða "fullorðins" mat. Yfirleitt er ekki talið sniðugt að byrja fæðu svo gamalla barna með mjög þunnum grautum og hálfgerð móðgun við þau. Þau geta borðað fæðu í bitum eða lausstappaða en hún verður bara að vera mjúk. Það er talið hollara fyrir þau að fá alvöru ávexti og grænmeti en ekki krukkumat. Krukkumaturinn er meira svona eins og skyndifæði hjá okkur. Gott að grípa í ef tími er naumur, verið á ferðalagi eða einhverjar sérstakar aðstæður. En hann á ekki að vera aðalfæði.   Vona að þetta hjálpi.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. maí 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.