Spurt og svarað

16. júlí 2008

Gæði brjóstamjólkur eftir geymslu og upphitun

Sælar.

Vil byrja á að þakka fyrir frábæran vef, ég hef nýtt mér hann mikið.

Ég er með 5 vikna gamalt barn og mjólka mig alfarið, þ.e.a.s. barnið fer ekki á brjóst. Mig langar að spyrja hvort gæði brjóstamjólkurinnar rýrni eitthvað við það að kæla hana í ísskáp og hita hana svo undir sjóðandi heitu kranavatni? Rýrna næringarefnin og mótefnin eitthvað við það? Mig langar líka að spyrja hvort ég sé í góðum farvegi með þessa mjólkun. Ég er að mjólka mig u.þ.b. 5 - 6 sinnum á dag og fæ að meðaltali um 110 ml. í hvert skipti. Barnið fær u.þ.b. einn 100 ml. þurrmjólkurpela á dag sem ábót.Það sem ég hef einnig verið að spá er hvort það sé erfitt að auka mjólkina í takt við vöxt barnsins því mér finnst mjólkin alltaf vera jafn mikil og ekki aukast neitt. Þetta er ágætt fyrir barnið eins og er en dugar skemur þegar barnið eldist og þarf að fá stærri skammta.

Kveðja, Regína.


Sæl og blessuð Regína.

Já, það rýrna alltaf gæði mjólkur sem er komin úr brjóstinu og geymd. Það að kæla hana og hita svo undir vatnsbaði tryggir þó að gæðin rýrni sem allra minnst. Það eru aðallega lifandi frumur sem verða fyrir barðinu á þessu en ekki mótefnin. Þannig að það er gott að þú hafir þennan háttinn á. Þú ert líka í ágætum farvegi með mjólkunina en þú gætir aukið mjólkina svolítið til að eiga alfarið fyrir barnið þannig að þú þyrftir ekki að bæta á það. Þú eykur mjólkina með því að taka þig til í 2-3 daga og mjólka þá helmingi oftar en venjulega. Síðan ferðu í það að mjólka jafnoft og áður. Skammtarnir stækka ekki með auknum aldri barnsins (eða afar lítið) ef barnið er að fá brjóstamjólk. Það er innihald og samsetning mjólkurinnar sem breytist. Það er bara ef barn fær þurrmjólk sem þarf að stækka skammtana því samsetning hennar breytist ekki.  

Vona að gangi vel áfram.   

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. júlí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.