Spurt og svarað

26. maí 2006

Gef aðeins úr öðru brjóstinu

Sæl og takk fyrir góðan vef.

Þannig er mál með vexti að ég átti barn fyrir 8 vikum. Brjóstagjöfin gekk mjög vel fyrstu vikurnar nóg af mjólk í báðum brjóstum en núna hefur það þróast þannig að ég gef aðeins með öðru brjóstinu, því miður hefur eitthvað gerst með hitt brjóstið. Á ég að reyna láta hann totta brjóstið sem minna er í til að koma því af stað aftur eða er það hægt, getur verið að það séu stíflur eða eitthvað sem hindrar að komi nægileg mjólk í brjóstið. Svo er það líka, ég hef áhyggjur því að það er frekar mikill stærðarmunur á brjóstunum vegna þessa, lagast það þegar ég hætti með hann á brjósti?

Kær kveðja.


Sæl og blessuð.

Þetta kemur fyrir á bestu bæjum eins og sagt er, að maður örvi annað brjóstið heldur röskar upp en gleymi hinu. Afleiðingin getur orðið þessi.

Svör við þínum spurningum eru: Já, þú átt að láta hann sjúga minna brjóstið sérlega oft og lengi til að ná upp framleiðslunni og: Nei það eru engar stíflur eða neitt sem hindrar mjólkurframleiðsluna. Það eina sem gerðist er að brjóstið fékk mun minni örvun og skrúfaði þess vegna niður í framleiðslunni.
Stundum getur verið erfitt að fá börn til að sjúga aftur „óvinsælt“ brjóst þannig að reyndu að vera sniðug í að finna stellingar sem virka. Ef barnið fer að láta illa við brjóstinu, skiptu þá í 2-3 mín. yfir á hitt og skiptu svo aftur. Notaðu tímann þegar vel liggur á barninu. Stærðarmunur brjóstanna jafnar sig ef þetta er lagað fljótt. Það gengur hins vegar ekki eins vel ef ástandið er látið halda áfram og barnið er kannski bara á einu brjósti í langan tíma.

Með óskum um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. maí 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.