Gef aðeins úr öðru brjóstinu

26.05.2006

Sæl og takk fyrir góðan vef.

Þannig er mál með vexti að ég átti barn fyrir 8 vikum. Brjóstagjöfin gekk mjög vel fyrstu vikurnar nóg af mjólk í báðum brjóstum en núna hefur það þróast þannig að ég gef aðeins með öðru brjóstinu, því miður hefur eitthvað gerst með hitt brjóstið. Á ég að reyna láta hann totta brjóstið sem minna er í til að koma því af stað aftur eða er það hægt, getur verið að það séu stíflur eða eitthvað sem hindrar að komi nægileg mjólk í brjóstið. Svo er það líka, ég hef áhyggjur því að það er frekar mikill stærðarmunur á brjóstunum vegna þessa, lagast það þegar ég hætti með hann á brjósti?

Kær kveðja.


Sæl og blessuð.

Þetta kemur fyrir á bestu bæjum eins og sagt er, að maður örvi annað brjóstið heldur röskar upp en gleymi hinu. Afleiðingin getur orðið þessi.

Svör við þínum spurningum eru: Já, þú átt að láta hann sjúga minna brjóstið sérlega oft og lengi til að ná upp framleiðslunni og: Nei það eru engar stíflur eða neitt sem hindrar mjólkurframleiðsluna. Það eina sem gerðist er að brjóstið fékk mun minni örvun og skrúfaði þess vegna niður í framleiðslunni.
Stundum getur verið erfitt að fá börn til að sjúga aftur „óvinsælt“ brjóst þannig að reyndu að vera sniðug í að finna stellingar sem virka. Ef barnið fer að láta illa við brjóstinu, skiptu þá í 2-3 mín. yfir á hitt og skiptu svo aftur. Notaðu tímann þegar vel liggur á barninu. Stærðarmunur brjóstanna jafnar sig ef þetta er lagað fljótt. Það gengur hins vegar ekki eins vel ef ástandið er látið halda áfram og barnið er kannski bara á einu brjósti í langan tíma.

Með óskum um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. maí 2006.