Geirvörtuformarar

19.09.2010
Sælar!
Mig langar að forvitnast um hvenær tímabært er að byrja notkun á geirvörtuformurum ef þess er þörf. Ég er komin 25 vikur og önnur geirvartan er hálf innfallin eða flöt og ég hafði hugsað mér að spara mér "mögulega" erfiðleika við brjóstagjöf þegar barnið fæðist. Hvenær er best að byrja að nota þá og þá hversu lengi í einu?
Kv. Helga.
 
Sæl og blessuð Helga!
Það er reyndar í öllum „fræðunum“ talað um að geirvörtuformarar skili engum árangri nema vörtur séu alveg inndregnar. Það má merkja með svokölluðu klípiprófi. Þá er vörtubaugur klipinn saman rétt fyrir aftan vörtuna. Ef hún hreyfist ekkert eða dregst inn er um raunverulega inndregna vörtu að ræða, en ef hún ýtist eitthvað út er hún ekki inndregin. Flatar vörtur eru engin fyrirstaða fyrir börn ef vefurinn í kring er mjúkur. Ef þú vilt samt nota geirvörtuformara þá er þetta fínn tími. Yfirleitt er ráðlagt að byrja að nota þá 1 klst. á dag. Gera þetta í nokkra daga og fara þá að lengja tímann um 30-60 mín. í senn.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. september 2010.