Geirvörtuformari, skeljar og broddur

19.03.2005

Sælar og takk fyrir alveg hreint frábæra síðu.

Ég er að nota svokallaða geirvörtuformara þar sem geirvörturnar á mér eru inndregnar.
Ég er byrjuð að nota skeljarnar allan daginn. Mig klæjar svolítið í geirvörtunum en í gær tók ég eftir því að það byrjaði að leka úr brjóstunum glær vökvi. Á vökvinn ekki að vera svona gulleitur ef það er brjóstamjólk? Getur verið að skeljarnar séu að kreista eitthvað út sem ekki á að koma eða hvað? Spurning mín er því sú hvort þetta sé eðlilegt og hvort ég ætti að halda áfram að nota skeljarnar ?

Með von um svör og fyrir fram þökk.

Keðja,  brjóstakonan 35 vikur og  4 daga.

.....................................................................


Já, þetta er fullkomlega eðlilegt. Broddur er til í ýmsum litbrigðum. Hann er gjarnan glær. Eða gulur eða gulleitur. Hann getur líka verið sterkappelsínugulur. Og fyrir kemur að hann er bleik eða brúnleitur. Það eru líka til fleiri litbrigði.

Þannig að það er bara farinn að þrýstast út broddur og það er gott merki fyrir komandi brjóstagjöf. Þú átt alls ekki að hætta að nota geirvörtuformarann. Broddurinn lekur ofan í plastskálina og þú þarft bara að þrífa það eftir þörfum. Lekinn getur svo komið og farið næstu vikurnar og það er allt ósköp eðlilegt.

Með bestu óskum um gleðilega komandi brjóstagjöf,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. mars 2005.