Spurt og svarað

14. mars 2005

Geirvörtur herpast saman...

Sælar og takk fyrir góðan vef!

Ég er mikið búin að reyna að fletta upp í gagnagrunni ykkar en finn ekki svar við þessum vanda mínum. Nú er ég með 3. krílið mitt á brjósti og vonast til að geta verið með hann á brjósti eins lengi og ég get. Tókst ekki með hin 2 að vera með þau á brjósti. Enn sem komið er gengur rosalega vel, hann er að verða mánaðargamall og er að þyngjast mjög vel. En þegar lekur úr brjóstunum þá herpast geirvörturnar saman og mig svíður gífurlega í brjóstin í nokkrar sek, er það alveg eðlilegt og varir það lengi? Svo er ég með stíflur í öðru brjóstinu og er búin að vera með heita bakstra á því og dugleg að láta hann sjúga, er eitthvað annað sem ég get gert og ef maður er duglegur að vinna á brjóstinu hvað á það að taka langan tíma að losa stífluna. Síðan er það hitt brjóstið og ég er svakalega aum í því sérstaklega fyrst þegar hann byrjar að sjúga, hvað er hægt að gera við aumum vörtum? Eru til einhver töfraráð handa til handa soddan klaufum og byrjendum í brjóstagjöf?

:) með fyrirfram þakkir um svör.
Kveðja, 3 bumba.

.............................................................................

Sæl og blessuð 3 - bumba.

Þegar þú talar um að geirvörtur herpist saman hlýturðu að meina að stífna upp. Það getur gerst við ýmiss konar áreiti s.s snertingu, kulda ofl. Að þetta gerist við leka er bara eitt áreitið enn. Sviði í kjölfarið er vegna samdráttarins eða nánar tiltekið þegar honum lýkur og blóðið fer að renna eðlilega um æðarnar aftur. Þú nefnir ekki að þetta tengist neitt brjóstagjöfum svo ég geri ráð fyrir að þetta sé ekkert að trufla þær. Ef að sviðinn er slæmur, fyrirbærið er eitthvað að trufla brjóstagjöfina eða þú sérð hvítnun á vörtutoppnum skaltu hafa samband við fagaðila sem gæti hjálpað. Þú spyrð hve lengi þetta geti staðið og það fer eftir ýmsu. Þetta tengist leka úr brjóstum og kona með 1 mánaða barn á löngu að vera orðin fær í að stoppa leka þannig að sennilega er þetta einhver ósjálfráður leki. Hann hættir af sjálfu sér upp úr 6 vikum. Þú gætir líka prófað hita á geirvörtur þegar herpingur byrjar. Málið er að ef þetta er að valda þér óþægindum þá áttu ekki að sætta þig við það. Þú manst að brjóstagjöf á að vera ánægjuleg.

Stíflur í brjóstum þarf alltaf af meðhöndla mjög markvisst. Fyrir hverja gjöf á viðkomandi brjósti á að setja heitan bakstur yfir stífluna í 5 mínútur fyrir gjöfina. Barnið á að snúa þannig við brjóstinu að hakan vísi á stífluna. Á meðan barnið sýgur á að nudda létt yfir svæðið í átt að vörtunni. Að gjöf lokinni á að setja kaldan bakstur á stíflusvæðið í nokkrar mínútur. Jafnframt þessu áttu að fara vel með þig, vera við rúmið, og losna undan álagi. Ef meðhöndlun gengur eðlilega er stífla yfirleitt farin eftir 3-5 daga.

Síðasti liðurinn sem þú talar um er erfiðastur. „Svakalega aum“ segir mér bara að það eru 25 atriði sem koma til greina. Þetta gæti t.d. verið útgáfa af herpingnum sem er að hrjá þig hinu megin. Það er jú möguleiki að hann sjúgi þessa vörtu skakkt þótt það sé ólíklegt hjá svo gömlu barni. Þú ert hugsanlega í byrjunarfasa sveppasýkingar en þá þarf samt fleiri einkenni til að styðja þá tilgátu og það sem mér finnst líklegast er einhvers konar ertingur frá umhverfi. Prófaðu í nokkra daga að sleppa öllum kremum og áburðum, sápum og body lotionum. Þvoðu vörturnar eftir hverja gjöf með vatni og þurrkaðu vel. Láttu loftið leika um þær í einhvern tíma (eins og við verður komið) áður en þú setur hrein og aukaefnalaus innlegg og brjóstahaldara þvegin úr nær engu þvottaefni og sem er úr bómull. En eins og ég segi þetta er nánast skot út í myrkrið. Það er fjölmargt sem kemur til greina sem orsök fyrir aumum vörtum. Ég treysti þér til að leita þér hjálpar ef ég hef ekki hitt á það rétta.

Bestu óskir um ánægjulega, óþægindalausa brjóstagjöf,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.