Geirvörtuvandamál

28.02.2005

Nú er ég búin að vera með drenginn minn í 6vikur á brjósti barn nr 2 en fyrra barnið var í 8mán án vankvæða.

Nú þegar að ég byrjaði að gefa drengnum, tók hann vörtuna mjög fast frá
upphafi enda stór strákur (4,8kg og 56cm fæddur) þannig að ég fékk
strax sár á vörturnar og var í 3 vikur að jafna mig.  Undafarna daga hef ég verið mjög pirruð í hægri vörtunni... eins og að það sé alltaf verið að klípa í hana, í haldaranum og þegar hann hefur verið að sjúga.

Ég hef séð hvitan blett á vörtunni, en í morgun var hann nkkuð stór, ég fór
í sturtu og var að reyna að kroppa skinnið af en þá byraði að vella gröftur
út, ca 2-4 droppar og svo byrjaði mjölk að streyma út sárinu.  Er þetta eðlilegt, má ég gefa honum áfram þetta brjóst, er þetta eitthvað sem að ég á að hafa áhyggjur af?  Ég tek það fram að ég er með smá óþægindi í brjóstinu, en það er ekki heitt eða rautt á neinn hátt.

                          ...........................................................

Sæl og blessuð.

Það er algengt að konur sem vita hvað vandræðalaus brjóstagjöf er sætta sig ekki við neitt annað. Það getur svosem bæði verið kostur og galli. Það er kostur að því leytinu að þær eru fljótar að bregðast við ef út af bregður og standa því styttra í vandræðum en aðrar konur. Það er galli að því leytinu að þær ætlast stundum til að nýja barnið sjúgi og hagi sér nákvæmlega eins og það eldra en það er að sjálfsögðu ekki hægt.
En nú að þínu vandamáli. Það eru mörg geirvörtuvandamál sem hefjast með sárum eða skaða á vörtunni. Jafnvel þótt sárið grói fínt þá situr eftir einhver aukaverkun þess og það getur tekið mun lengri tíma að losna við þau vandamál. Til að allt sé nú á kristaltæru þá fékkstu að sjálfsögðu ekki sár af því að barnið saug svo fast í byrjun vegna þess að það var svo stórt. Þú færð sár vegna þess að barnið sýgur skakkt, fær of lítinn stuðning eða er í slæmri stellingu í einhverri af fyrstu gjöfunum. Sárar vörtur eru ekki tengdar sogstyrk. Það virðist hafa tekið 3 vikur að laga sárið sem mér finnst ógnarlangur tími.
Lýsing þín á pirringi í annarri vörtunni og eins og verið sé að klípa í hana getur átt við ýmis vandamál. Að þetta gerist eftir gjafir fækkar möguleikunum en það vantar hversu lengi eftir gjafir þetta er. Hvítur blettur á vörtunni getur bent til æðasamdráttar en það skiptir miklu máli hvar á vörtunni hann er og hvenær hann birtist. Því miður er lýsingin á skinnkroppinu og greftrinum of óskýr til að ráðið verði í hana. Var skinnið hvíti bletturinn? eða yfir hvíta blettinum? 2-4 dropar af greftri er mjög lítið og gæti bent til sýkingar í fitukirtli, hársekk eða einhverju pínulitlu fyrirbæri. Það getur valdið miklum óþægindum en er fljótt að lagast.
Já, það er ekkert því til fyrirstöðu að gefa barninu brjóstið og nei, þú þarft ekki að hafa áhyggjur af neinu nema þú hafir einhver einkenni sem trufla þig í brjóstagjöfinni eða veldur þér sársauka.

Með óskum um óþægindalausa brjóstagjöf. Katrín brjóstagjafaráðgjafi