Geislajoð-venja af brjósti

20.11.2011

Ég á eina dóttur sem er rúmlega 3ja mánaða og hefur verið á brjósti. Þannig er að ég greindist með illkynja krabbamein í skjaldkirtli á meðgöngu og hann fjarlægður. Nú er svo komið að ég þarf að fara í geislajoð. Ég fékk þó að hafa stelpuna aðeins á brjósti. Ég stefni á að fara í þetta eftir áramót, dagsetning ekki ákveðin, fer allt eftir hvenær ég hætti alveg með hana á brjósti. Læknirinn minn segir að ég þurfi að vera alveg hætt með hana í tvo mánuði áður en ég fer í meðferðina. Hvernig er gott að venja hana af brjóstinu og bæta inn pelagjöfum?


 

Sæl og blessuð!

Það er gott að þú ert búin að fara í aðgerðina. Geislameðferðin miðast við hvort þú vilt halda brjóstagjöfinni áfram eða ekki. Það þarf að hætta brjóstagjöf á meðan meðferð stendur og í einhvern tíma á eftir,allt eftir því hversu sterkt efni er notað. Það er oft mælt með að konur (ef þær vilja halda í brjóstagjöfina) undirbúi sig með því að vera búnar að mjólka sig áður og safna upp birgðum. Birgðirnar fær barnið svo í og eftir meðferð þar til hægt er að byrja brjóstagjöfina aftur. Það er mislangur tími eins og áður kom fram frá 2-3 dögum og upp í 2-3 vikur. Ég hef ekki heyrt að það þurfi að vera búið að hætta brjóstagjöf löngu fyrir geislajoðmeðferð. En ef þér hugnast þetta ekki venur þú barnið af brjósti eins hægt og þér er unnt. Tekur út 1-2 gjafir á viku og leyfir brjóstunum og barninu að jafna sig á milli. Í stað brjóstagjafar kemur inn þurrmjólkurgjöf með pela í staðinn.

Vona að þér gangi vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. nóvember 2011.