Spurt og svarað

06. desember 2005

Get ég náð gjöfunum aftur í fyrra horf?

Sæl.

Ég á í vandræðum. Þannig er mál með vexti að það hefur því miður dregið úr brjóstagjöfunum hjá mér og ég freistaðist til að fara að gefa ábót. Orsökin er m.a. að ég er í prófum og mikið álag á mér og mínum. Einnig er sonur minn mjög misduglegur að drekka og sefur hátt í 10 tíma á nóttunni í einum dúr án gjafa. En mig langar að gefa honum frekar brjóst og því spyr ég: Get ég náð gjöfunum aftur í fyrra horf, hvernig er best að gera það og skiptir það nokkru máli fyrir hann þó hann hætti á þurrmjólkinni? Er það ekki bara betra? Ég hef lesið mér aðeins til hér á síðunni og skilst að maður eigi bara að auka gjafirnar til að auka mjólkina. En hvað geri ég ef hann er stundum latur við að drekka en orgar samt af hungri þess á milli? Á ég samt bara að bíða róleg eftir því að hann fari að fá nóg? Og eitt í viðbót, skiptir það máli hversu lengi hann er á hvoru brjósti?

Kveðja, Unnur.

..................................................................................................

Sæl og blessuð Unnur.

Það vantar reyndar eitt lykilatriði í bréfið þitt. Aldur barnsins. Það skiptir máli hvort barnið er 9 daga, 9 vikna eða 9 mánaða. Ef ég reyni að lesa úr bréfinu en ég viðurkenni það er næstum því hrein ágiskun þá ætla ég að gefa mér að þetta sé nokkurra vikna barn. Því yngra sem barnið er því auðveldara er að fá það aftur yfir á brjóstið. Þú átt alveg að geta komið gjöfunum aftur í fyrra horf og nei þurrmjólk er alls ekki að gera honum neitt gott. Aðferðin við að koma honum aftur á brjóstið er fólgin í að bjóða það oftar og fyrr. Það þýðir að hann má helst aldrei vera orðinn mjög pirraður eða þurfa að bíða eftir brjóstinu. Hann á ekki að ná því stigi að orga af hungri. Ef þú hefur á tilfinningunni að hann sé mjög svangur skiptirðu um brjóst á nokkurra mínútna fresti þar til hann verður saddur. Það er oft mikilvægt þegar verið er að ná upp mjólkurframleiðslu að skipta oftar um brjóst í gjöf í nokkra daga.Vertu endilega dugleg í nokkra daga að vinna þessa aukavinnu svo þú komir honum aftur eingöngu á brjóst. Þú kemur ekki til með að sjá eftir því.

Baráttukveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. desember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.