Spurt og svarað

20. október 2005

Get ég náð mjólkurframleiðslunni upp aftur?

Sæl og takk fyrir góðan vef!

Mig langar að spyrja ykkur. Málið er að ég gerði þau mistök fyrir um 2 vikum að byrja nota þurrmjólk handa stelpunni minni hún er núna 3ja mánaða. Það voru bara alltaf gestir hérna og ég var orðin pirruð að vippa alltaf brjóstinu fyrir framan alla og er mjög feimin líka og gat ekki komist í næði svo ég ákvað að gefa henni bara þurrmjólk en er enn að gefa henni eins og eina gjöf úr sitt hvort brjóstinu oftast fyrir svefninn og fyrsta gjöfin á morgnana. Hún er farin að verða pirruð að taka brjóstið en núna sé ég svo eftir þessu og vildi óska að ég gæti haft hana alveg á brjósti aftur en er það ekki orðið of seint fyrir mig? Ég er búin að reyna fara í heitt bað og mjólka mig og svona en náði samt  ekki nema um 20 ml samtals þá svo ég býst við að þetta sé orðið of seint sem mér þykir mjög leitt. Hvað haldið þið? Er einhver möguleiki?

......................................................................

Sæl og blessuð!

Eins og ég hef komið að áður á þessari síðu þá er alltaf hægt að ná upp mjólkurframleiðslu aftur sem hefur verið sett vel af stað eftir fæðingu. En það kostar vinnu. Mismikla vinnu eftir aðstæðum, börnum, mæðrum o.fl. en alltaf einhverja vinnu. Það er í rauninni aldrei of seint. Jafnvel konur sem hafa hætt alfarið brjóstagjöf í nokkrar vikur hafa tekið sig til og náð aftur upp fullri framleiðslu. Þetta er fyrst og fremst spurning um að örva upp framleiðsluna með því að taka oft mjólk úr brjóstunum og helst sívaxandi magn. Auðvitað þarf að koma á móti að venja barnið af leið til næringar sem er því auðveldari og fljótlegri. Reyndu að vinna alfarið að þessu verkefni næstu daga og njóttu svo afrakstursins. Mér finnst þú hins vegar þurfa að finna lausn á vandamálinu sem varð til þess í upphafi að þú vandir barnið næstum af brjósti. Þú þarf að finna aðstöðu til að geta gefið barninu þínu í friði eða gera gesti útlæga á þeim tímum sem þér henta. Hér er heilbrigði ungabarns í húfi og gestirnir verða að skilja það. Það væri mjög leiðinlegt ef þú lentir aftur í sömu vandræðum þegar þú ert búin að koma mjólkurframleiðslunni í gott horf.

Með baráttukveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. október 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.