Spurt og svarað

30. apríl 2004

Get ég orðið ?lausmjólka? aftur?

Hæ hæ!

Ég á 3. mánaða gamlan strák og hef verið með hann á brjósti frá fæðingu. Fyrst var ég frekar lausmjólka en á síðustu 3 vikum hefur það breyst mikið. Hann þarf að totta í dágóða stund áður en mjólkin kemur. Hann á það til að verða mjög pirraður á þessu og neita hreinlega að fara á brjóst, eins og hann gefist bara upp.  Er eitthvað sem ég get gert til að verða lausmjólka aftur?

.....................................................................

Blessuð!

Lausmjólka og fastmjólka eru orð sem notuð eru yfir mjólkandi kýr og lýsa því hversu mikið handafl þarf til að ná mjólkinni. Það byggist sjálfsagt á því hve víðir mjólkurgangar þeirra eru.

Þegar talað er um lausmjólka eða fastmjólka konur er fólk að meina mismunandi hluti. Oftast er verið að tala um það hve langur tími líður frá því að örvun á sér stað (barn byrjar að sjúga) þar til mjólkin flæðir upp í barnið.  Þetta er kallað mjólkurlosunarviðbragð.  Þessi tími er mislangur milli kvenna frá nokkrum sekúndum til nokkurra mínútna. En yfirleitt er hann nokkuð jafnlangur í öllum gjöfum sömu konu. Það sem getur truflað mjólkurlosunarviðbragðið er neikvætt andlegt ástand t. d. þreyta, kvíði, streita, pirringur o.s.frv. Þess vegna er svo mikilvægt að slaka á í gjöfum og það gildir allan brjóstagjafatímann.

Stundum er talað um lausmjólka konu ef hún lekur mikilli mjólk. Það gera reyndar mjög margar konur á fyrstu 6-7 vikunum. Þá breytist stjórnun losunar og mjólkin á að hætta að leka. Hún gerir það líka yfirleitt nema við mjög sérstök tækifæri. Þetta hefur ekkert með lausmjólka/fastmjólka að gera og því síður tengist það magni mjólkur. Það þýðir bara betri aðlögun brjósta að mjólkurframleiðslu.

Svarið við spurningunni er því: Nei, Þú getur ekki gert þig lausmjólka aftur.  En þú getur einbeitt þér að slökun í gjöfum svo mjólkurlosunarviðbragðið fari fyrr af stað. Og, ef barnið er pirrað og neitar að fara á brjóst af því að mjólkin kemur ekki nógu fljótt fyrir það. Það er ekki verulega svangt barn og getur beðið smástund þar til það er tilbúið að sjúga betur þar til mjólkin flæðir.

Bestu kveðjur,                                                                                     
Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi - 30. apríl 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.