Geta allar mæður haft börn sín á brjósti?

08.02.2006

Góðan daginn!

Ég var að velta því fyrir mér hvort að allar mæður gætu haft börn sín á brjósti. Þannig er að ég er komin 39 vikur á leið og það er ekki svo mikið sem broddur farinn að myndast hjá mér. En alls staðar þar sem ég hef verið að lesa um brodd og mjólkurmyndun þá er eðlilegt að það hefjist um miðja meðgöngu. Alla meðgönguna hef ég ekki fundið fyrir neinni breytingu á brjóstunum hjá mér. Þannig að ég er farin að velta því fyrir mér hvort það sé eðlilegt.  Var að velta því fyrir mér hvort að ég þyrfti að kaupa þurrmjólkurblöndu til þess að eiga til vara. Þetta er mín önnur meðganga en á fyrri meðgöngu var þetta allt öðruvísi, gekk þá eðlilega fyrir sig miðað við það sem ég hef lesið. Getur verið að sumar mæður mjólki bara ekki? Dálítið langsótt en hvað er eðlilegt í þessu sambandi?

Kveðja, Helga.

.................................................................................................

Sæl og blessuð Helga.

Já, það má heita svo að allar mæður geti haft börn sín á brjósti. Það er síðan hægt að setja alls kyns fyrirvara við þetta svar og teygja skilgreiningar en þegar allt kemur til alls þá er niðurstaðan sú sama. Líffræðilega geta nær allar konur haft á brjósti og yfirgnæfandi meirihluti framleiðir næga eða meiri en næga mjólk. Það sem helst truflar brjóstagjöf nú til dags eru andlegir og félagslegir þættir og þá helst ytri aðstæður. Að mínu mati vantar helst upp á að konur hafi trú á að þær geti haft á brjósti af einhverjum ástæðum og síðan leiðir það til vandræða og með lítilli tiltrú er það fljótfarin leið niður á við. Í allri umræðu um broddmyndun á meðgöngu er það alltaf tekið fram að stór hluti mæðra finni breytingar á brjóstum og verði varar við broddleka. Það er tekið sem gott merki. Á móti kemur alltaf lítill hluti kvenna sem ekki finnur breytingar og jafnvel stærri hluti sem ekkert verða varar við leka en það er allt fullkomlega eðlilegt hjá þeim.
Það eru hinsvegar til einstöku frávik í brjóstagjöf sem hafa þennan skort sem fyrsta merki um að eitthvað sé ekki að ganga upp. Þetta eru sjaldgæf frávik í brjóstaþroska, sjaldgæf frávik í hormónaflæði og fleira. Það kemur auðvitað fram við fyrstu meðgöngu en getur ekki komið og farið. Þannig að ef þú hefur einu sinni fundið þessar breytingar geturðu verið alveg róleg. Að sjálfsögðu kaupirðu ekki þurrmjólk áður en barnið fæðist. Það er einmitt þessi skortur á trú sem ég var að tala um að eyðileggur flestar þær brjóstagjafir sem fara út um þúfur. Gættu þess bara að fá allan þann stuðning sem þú þarft við brjóstagjöfina í byrjun og segðu við sjálfa þig 20 sinnum á dag „ég get þetta“. Þú getur byrjað á því strax.

Með ósk um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi
8. febrúar 2006.