Geta brjóstabörn fengið of mikið?

21.08.2007

Ég á tæplega sex mánaða skvísu sem er eingöngu á brjósti. Brjóstagjöfin hefur gengið vel og hún fengið nóg. Nú eru hins vega sjálfskipaðir sérfræðingar í næringu ungbarna að segja mér að...

...ég verði að fara að gefa henni mat

...hún sé orðin of feit og ég eigi að gefa henni vatn.

Ég hef leitt þetta hjá mér með matinn, en verð samt að viðurkenna að er farin að hlakka til að geta sagst gefa henni mat og mun ábyggilega byrja daginn sem hún verður sex mánaða. Hún er reyndar alltaf að æfa einhverjar tunguhreyfingar þannig að held hún verði s.s. ekkert mótfallin því.Hins vegar var hún frekar mjó og löng við fæðingu en þyngdist mjög hratt
og fór á sína kúrfu um 2 vikna og hefur fylgt henni síðan. Hún er vel búttuð en ég veit ekki hvort og hvernig ég á að stýra því hjá henni. Þar sem ég bý er mjög heitt og hún drekkur oft yfir daginn. En lengri gjöfum hefur ekkert fjölgað en hún tekur margar stuttar. Hélt það væri bara til að svala þorstanum. Á ég að gefa henni vatn líka? Hef set í stútkönnu u.þ.b. 15 ml og henni finnst sport að drekka það en klárar það aldrei er meira bara að leika sér að könnunni bera upp að munninum og setja niður aftur. Hún vill það alls ekki ef er heitt og þyrst þá vill hún bara brjóstið.

Yrði svaka fegin ef þið gætuð ráðlagt mér varðandi þetta. Afsakið hvað þetta er mikil langloka.

Bestu kveðjur, Ein þreytt á sjálfskipuðum brjóstagjafalöggum


Sæl og blessuð „Ein þreytt á sjálfskipuðum brjóstagjafalöggum“!

Mér heyrist þú nú hafa þetta nokkuð á hreinu. Það er rétt hjá þér að það liggur ekki á að fara að gefa mat. Eftir að hún verður 6 mánaða geturðu farið að kynna hana fyrir honum í rólegheitum. Það er líka rétt hjá þér að hún þarf ekki á auka vatni að halda. Barn sem býr í heitu umhverfi tekur gjarnan margar stuttar gjafir sem gefur því mikinn vökva eða auðvitað bara þann sem það þarf. Brjóstin aðlagast þessari þörf mjög auðveldlega. Það á sumt fólk voðalega erfitt með að skilja þetta. Reyndu bara að útskýra að náttúran sjái alveg um þetta. Og þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur þótt hún sé svolítið þykk núna. Það rennur auðveldlega af henni þegar hún fer að ganga og hlaupa. Haltu ótrauð áfram.     

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. ágúst 2007
.