Spurt og svarað

18. júní 2008

Getið þið gefið mér ráð til að fækka þessum næturgjöfum?

Kæru ljósmæður!

Sonur minn, 15 vikna, vaknar alltaf 4-5 sinnum yfir nóttina til að drekka. Hann sofnar um klukkan 10 og við förum á fætur á milli 8.30-9. Hann vaknar alltaf á tveggja tíma fresti til að drekka og drekkur þá mjög vel og sofnar út frá því. Getið þið gefið mér eitthvað ráð til að fækka þessum næturgjöfum? Ég fæ sjálf mjög lítinn svefn út af þessu og er orðin ansi þreytt. Á daginn er enginn sérstök regla á því hvenær hann drekkur, alltaf þegar hann vaknar eftir lúr en síðan eftir þörfum. Yfirleitt eru þó ekki mikið meira en tveir tímar þarna á milli nema þegar hann sefur lengur en það sem er mjög sjaldan og ég fæ ekki nógu oft tækifæri til að leggja mig með honum. Þess ber kannski að geta að drengurinn fæst ekki enn til að taka snuð þó ég sé alltaf að reyna það.

Annað langar mig að spyrja um. Nú erum við að venja drenginn á að sofna í rúminu sínu á kvöldin og það gengur ágætlega en hingað til hefur hann helst viljað sofna á brjósti. Er í lagi að leyfa honum að sofna á bjósti á nóttunni eða verð ég að láta hann hætta því líka?

Með von um góð ráð, Ásta.


Sælar!

Með næturgjafir hjá svona litlum börnum, þá er það stundum erfitt að fá þau til að lengja tímann á milli gjafa ef þau eru búin að venjast því að sjúga með stuttu millibili. Það sem hægt er að gera er að fá pabbann eða stuðningsaðila til að sinna barninu í annað hvert skipti þegar barnið vaknar - hlú að því breiða sæng yfir barnið og hugga og reyna að svæfa án þess að barnið fái brjóst. Stundum notum við snuð eða bangsa til huggunar. Þannig er stundum hægt að lengja tímann á milli gjafa og barnið hættir að nenna að vakna. Mörg svona lítil börn vakna tvisvar sinnum á nóttu til að sjúga brjóstið, stundum oftar - þá aðallega ef þau eru í vaxtarkipp - það er talað um að þau taki vaxtarkipp á u.þ.b. 6 vikna fresti. Flest börn sofna við brjóstið á nóttunni, þau sjúga oftast stutt í einu og móðirin sofnar þá fljótt aftur.

Með bestu kveðju og gangi þér vel,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstgjafaráðgjafi,
18. júní 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.