Getnaðarvarnasprautan og áhrif á brjóstagjöf

10.12.2008

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég var að spá í hvort getnaðarvarnarsprautan geti haft áhrif á brjóstagjöfina? Ég fékk mér hana fyrir 2 vikum samkvæmt ráðleggingum kvensjúkdómalæknis en mjólkin virðist hafa dottið næstum alveg niður hjá mér á svipuðum tíma og hún átti að fara að virka. Þetta er kannski tilviljun en ákvað samt að spyrja.

Kveðja, Sólveig.


Sælar!

Smokkurinn, estrógenlausa getnaðarvarnarpillan og lykkjan eru þær getnaraðvarnir sem talið er óhætt að nota meðan barnið er á brjósti. Getnaðarvarnarsprautuna má nota samhliða brjóstagjöf ef 6 vikur hafa liðið frá fæðingu. Samkvæmt upplýsingum í bækling frá Landlæknisembættinu „Leiðbeiningar um getnaðarvarnir“ kemur fram að hormónasprautan - Depo-Provera - sé heppileg getnaðarvörn fyrir mæður með börn á brjósti.

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
10. desember 2008.