Getur brjóstamjólk súrnað í brjóstum?

23.01.2009

Sælar!

Ég á 2ja og hálfs mánaða gamla dóttur sem er eingöngu á brjósti. Ég er nýbyrjuð að skokka en um leið og ég byrjaði tók ég eftir því að dóttir mín fór að æla mun meira en vanalegt er(ælir ekki oft). Þar sem ég er að byrja að hreyfa mig eftir langt hlé er ég að reyna þó nokkuð mikið á mig enda í engu formi. Mér var sagt að það gæti verið að brjóstamjólkin væri orðin súr hjá mér vegna áreynslu. Að mjólkursýra við of mikla áreynslu valdi því. Mín spurning til ykkar er því hvort þetta geti staðist? Getur mjólkin í brjóstunum súrnað við áreynslu eða eru þetta "gamlar kellingabækur"?

Kær kveðja,Skokkmamma.


 

Sæl og blessuð Skokkmamma.

Þarna er um gamlan misskilning að ræða kannski vegna einhvers samanburðar við kúamjólk. Veit það þó ekki nógu vel. Svarið við þinni spurningu er því: Nei, mjólkin getur ekki súrnað í brjóstunum. Niðurbrotsefni áreynsunnar hækka lítillega í mjólkinni en  það kemur súrri mjólk ekkert við. Líkleg skýring á auknum ælum dóttur þinnar getur verið að mjólkurframleiðslan hafi einfaldlega aukist en það gerist gjarnan þegar konur fara að hreyfa sig betur eftir fæðingu.

Vona að gangi svona vel hjá þér áfram.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
23. janúar 2009.