Spurt og svarað

16. desember 2007

Getur brjóstamjólk valdið óværð?

Sælar

Ég á þriggja mánaða gamlan strák og hef verið að basla við mikla óværð og uppköst hjá honum alveg frá því hann var u.þ.b. 3 vikna. Ég hef farið til nokkurra lækna og reynt alls konar remedíur en ekkert virðist virka. Ég hef verið að þrjóskast við að hafa hann á brjósti þrátt fyrir að ömmur og mömmur vilji ólmar að ég gefi honum graut og þurrmjólk því það sé hreinlega bara „eitthvað að“ mjólkinni minni. Núna er hann búinn að vera í eina viku á bakflæðislyfinu Zantac og ég sé engan mun á stráknum. Hann er alltaf eitthvað pirraður á daginn en sefur sem betur fer allar nætur (ég má þó þakka fyrir það). Mín spurning er þessi: Getur verið að það sé eitthvað að mjólkinni minni? Eru til dæmi þess að börn þoli illa brjóstamjólkina án þess að þau séu með mjólkurofnæmi eða óþol? Getur verið að það sé eitthvað sem ég borða sem fer svona rosalega illa í hann þannig að það valdi svona miklum pirringi hjá honum?Sæl og blessuð.

Það er kannski ekki gott að segja hverju þú ert að lýsa. Ef það er t.d. kveisa þá ertu akkúrat komin á tímann þegar það fer að lagast. Ef það er of mikil formjólk þá veistu kannski að það hjálpar mest að gefa aðeins eitt brjóst í gjöfinni og þá helst sem lengst. Það sem þú getur verið viss um er að það er ekkert að mjólkinni þinni og það er trúlegt að hvað annað sem færi í maganna á barninu myndi valda ennþá meiri vandræðum. Þannig að mér finnst þú búin að standa þig vel, ég tala nú ekki um með því að fá minni en engan stuðning frá ættingjum. Það er líka afar ótrúlegt að eitthvað sem þú borðar valdi vandræðum hjá barninu en gættu þess að borða það sem þig langar í og þú veist að fer vel í þinn maga. Það kemur fyrir að mæður eru komnar yfir á óþarflega einhæft fæði af ótta við að eitthvað trufli börnin og það getur valdið í sjálfu sér vandræðum.
Vona að ástandið lagist. 

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. desember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.