Getur ekki sofnað nema út frá brjóstinu

21.09.2004

Ég er með eina 1½ mánaða sem getur eiginlega ekki sofnað nema út frá brjóstinu (sofnar einstaka sinnum án þess og hún sofnar í bílnum og í vagninum). Er þetta alveg eðlilegt? Hvað get ég gert til að venja hana af þessu?

Með fyrirfram þökk, dhg.

...............................................................

Sæl og blessuð dhg.

Það er börnum í sjálfu sér mjög eðlilegt að vilja vera sem mest upp við mömmu sína og kúra. Algjört uppáhald hjá þeim er að að líða inn í draumalandið í mýktinni umvafið hlýju öryggi, góðri lykt og með næringuna upp í munninum. Ég meina, hvað er hægt að biðja um meira.
Það er svo undir hverri móður fyrir sig komið hvort hún tekur þessu eða reynir að móta barnið til að hegða sér öðruvísi. Það hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að börn sem eru mikið í faðmi foreldra sinna og finna þar öryggi og ástúð verða seinna mjög sjálfsöruggir og sterkir einstaklingar. Þá féll sú kenning að börnum sem væri hampað mikið yrðu ósjálfstæð og óörugg. En eins og ég segi þá er þetta ákvörðun foreldra og með þrautseigju og þolinmæði er hægt að venja eða afvenja barn á svo til hvað sem er ef vilji er fyrir hendi.

Bestu kveðjur og njóttu þess meðan það varir,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóður og brjóstagjafaráðgjafi,
17. september 2004.