Spurt og svarað

01. desember 2005

Geymsla brjóstamjólkur

Hvernig á að bera sig að við geymslu á brjóstamjólk? 

  • Ef ég mjólka mig á ég þá að setja mjólkina strax í frysti eða kæla hana niður áður?
  • Í hverju geymi ég mjólkina?
  • Hvað geymist hún lengi í frysti?
  • Hvernig brjóstadæla er best?

Ég er að spá í þessu vegna þess að mig er farið að langa til að skreppa út á kvöldin þegar maðurinn minn kemur heim og ég kann ekkert á þetta kerfi.

....................................................

Sæl og blessuð.

Varðandi meðhöndlun brjóstamjólkur þá er alltaf hreinlætið í fyrirrúmi. Hreinar hendur, hrein ílát o.s.frv.

Ílátin eru best sem nýjust (órispað yfirborð) og þau mega vera úr vönduðu plasti eða gleri. Algengast er að konur geymi mjólk í pelunum sem þær mjólkuðu sig í. Það eru líka til sérstakir brjóstamjólkurpokar úr plasti sem lítið loðir við.

Það er best að kæla mjólkina sem fyrst eftir mjólkun. Ef það á að nota hana á næstu dögum er hún sett í ísskáp en ef geyma á lengi er betra að frysta. Það skiptir máli hvernig frystirinn er upp á geymslutíma. Frystir sem er hluti af ísskápshólfinu er sístur. Í honum geymist mjólk bara í 3-4 vikur. Frystir á ísskáp sem er með sérhurð geymir í 3 mánuði og frystikista er best. Í henni geymist mjólk í marga mánuði og allt upp í ár. Mjólkin geymist best ef hún er innarlega í ísskápnum eða frystinum og ef hurðin er ekki mikið opnuð.

Besta brjóstadælan eru hendurnar á þér þ.e. handmjólkun sem þú átt að geta fundið upplýsingar um víða. Síðan eru til ýmsar gerðir af pumpum sem þú notar handaflið við að knýja áfram eða eru batteríis eða rafknúnar. Það er mjög mismunandi hvaða tegund hentar hvaða konu. Ég mæli með að þú prófir handmjókunina fyrst og ef það hentar þér ekki að kaupa þér þína eigin dælu en ekki fá lánaða.

Vona að þetta komi að einhverju gagni,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. desember 2005.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.