Geymsluþol þíddrar brjóstamjólkur

10.10.2009

Sælar!

Nú hef ég undir höndum blað sem segir að ég megi geyma brjóstamjólk í kæli í 2-3 daga áður en þarf að henda henni. Spurningin mín er sú að ef ég frysti 3 daga gamla brjóstamjólk (má það í fyrsta lagi þegar hún er alveg að "renna út" á tíma?) og þíði hana í ísskáp (sem tekur um 10-12 klst. hjá mér við 4°C) þarf að gefa mjólkina strax og hún er þiðin eða má t.d. nota hana næsta sólarhringinn eftir þíðinguna?

Kærar þakkir.

 


Sæl og blessuð!

Ef þú ert með brjóstamjólk sem þú ert nokkuð viss um að nota á næstu dögum er best að geyma hana í ísskáp við 0-4°C. Hún geymist í 7-8 daga. Ef lengri tími er liðinn verður þú að henda henni.

Ef þú ert ekki viss hvort þarf að nota mjólkina á næstu dögum er betra að frysta hana strax. Þegar þú hefur látið hana þiðna hvort sem er í ísskáp eða á borði þarf að nota hana á næsta sólarhring. Það gildir það sama um mjólk sem hefur ekki farið í frystinn fyrr en eftir nokkra daga.

Þetta gildir um fullburða, hraust börn en ef um veikburða börn er að ræða eru oft notaðar strangari reglur um geymslu. Ég nefni þetta bara af því að það kemur ekki fram hvað þú ert með gamalt barn.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. október 2009.