Spurt og svarað

27. desember 2006

Gigtarlyf og brjóstagjöf

Hjálp!

Ég er með eina 7 vikna og gengur brjóstagjöf vel. Ég greindist með mjög slæma gigt fyrir 2 dögum og verð ég að hætta brjóstagjöf fyrir 8. janúar vegna lyfja. Ég er alveg í rusli yfir þessu og er ekki viss hvað eða hvernig ég á að gera þetta. Ofan á allt er litlan kvefuð.


Sæl og blessuð.

Mér þykir leitt með greininguna og vona að lyfin hjálpi þér. Ég veit ekki um nein gigtarlyf sem þarf að hætta brjóstagjöf út af nema gull. Mér finnst ótrúlegt að það sé byrjað á gulli því það er yfirleitt seinni tíma meðferð en það getur auðvitað verið. Önnur gigtarlyf eru oft sterkir sterar og það þarf akki að hætta brjóstagjöf þeirra vegna. Stundum eru þeir reyndar gefnir í mjög stórum skömmtum í mjög stuttan tíma og þá má ekki gefa brjóst. Þá er hins vegar hægt að mjólka brjóstin og henda mjólkinni í þann stutta tíma. Byrja svo brjóstagjöfina aftur.  Ég ráðlegg þér að hætta brjóstagjöfinni ekki. Barnið þitt þarf á mjólkinni að halda. Þetta er auðvitað erfiður tími en það er hægt að vinna sig út úr honum ef vilji er fyrir hendi. Þú þarft auðvitað á samvinnu læknanna þinna að halda en þeir eru bestir í að finna skástu leiðina. Ef þú lætur þá vita að það er eindregin ósk þín að halda brjóstagjöfinni áfram þá eru þeir trúlega boðnir og búnir til að hjálpa ef það er hægt. Ef þú ert hins vegar ákveðn í að hætta þá er best að gera það smám saman eins og lýst hefur verið hér á síðunni áður. Taka út 1 gjöf og láta líða 2-3 daga, taka út næstu, láta líða 2-3 daga o.s.frv. Þær gjafir sem eftir standa verðurðu að pumpa eða handmjólka. Þú finnur nokkuð vel á brjóstunum hversu hratt þetta getur gengið. Í restina mjólkar þú annan eða þriðja hvern dag. Ef þú ferð að finna spennu í brjóstunum seinna geturðu mjólkað pínu til að létta á. Annars læturðu brjóstin alveg vera.

Með baráttukveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. desember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.