Gjafastellingar og D-vítamín

11.05.2011
Sælar!
Ég er með einn 3ja mánaða sem er eingöngu á brjósti. Ég hef gefið honum í öfugri kjöltustöðu eða fótboltastellingu með góðum árangri. Núna langar mig að hafa hann í kjöltustöðu en á í erfiðleikum með það. Hann dettur alltaf af brjóstinu eða er farinn að teygja sig svo að hann meiðir mig. Gætir þú lýst því hvernig er best að börnin liggi þegar maður lætur þau drekka úr kjöltustöðu. Hversu framarlega eða aftarlega á framhandleggnum er best að þau liggi og hvernig munnurinn á að vera miðað við geirvörtuna. Hvernig er best að gera tilfærsluna úr öfugri kjöltustöðu í kjöltustöðu? Einnig langar mig að spyrja varðandi D-dropana. Ég sá fyrirspurn varðandi þá hér á síðunni þar sem einni spurningu var ósvarað. Hún er: Ef móðir tekur heilsutvennu, fær barnið D-vítamín í gegnum brjóstamjólk í nægilegu magni? Ég er nefnilega mjög gleymin á dropana en man alltaf eftir minni heilsutvennu.
 
Sæl og blessuð!
Það sem breytist oft um 3ja mánaða aldurinn er hegðun barnsins á meðan það sýgur. Nú getur það smám saman farið að gera fleira en eitt í einu. Og þau reyna að þjálfa sig í því eins og þau framast geta. Þá geta þau semsagt bæði sogið og annarsvegar hreyft hendurnar, klipið og klórað og líka fæturna sparkað og spyrnt í. Svo prófa þau að snúa höfðinu með vörtuna upp í sér eða reyna að teygja hana út. Það er auðvitað ekkert þægilegt fyrir móðurina en það venst. Þau geta flestöll verið í hvaða stellingu sem er á þessum aldri. Auðvitað er alltaf þægilegast að höfuðið sé á móts við brjóstið og þá er það oftast á efri hluta framhandleggs. Og nú þarf náttúrlega ekki lengur að styðja neitt sérstaklega við höfuð og lítið við búk. Flestar gefa í venjulegri kjöltustöðu eða fótboltastöðu þar sem barnið er nánast á bakinu. Aðalatriðið er að þau geti ekki náð að teygja sig langt frá brjóstinu(með vörtuna upp í sér).
Varðandi D-vítamín þá er gott að þú takir heilsutvennu en það eru ekki fullnægjandi rannsóknir sem sýna að það skili nægu D-vítamíni til barnsins. Þannig að það er mikilvægt að það barnið fái dagsbirtu eða sól á sig sem skilar því D-vítamíni. Svo er líka sá kostur fyrir hendi að gefa barninu lýsi eða D-dropa.
Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. maí 2011.