Spurt og svarað

15. nóvember 2009

Gjafaströgl

Sælar og takk fyrir ofsalega faglegan og gagnlegan vef!

Þannig er mál með vexti að brjóstagjöfin gekk erfiðlega alveg frá upphafi. Í fyrstu vildi músin mín alls ekki brjóstin. Brjóstagjafaráðgjafi ásamt ljósunni minni reyndu að hjálpa en ekkert gekk. Brjóstin mín fín og munnur hennar litlu minnar í lagi en ekkert gekk. Við notuðum fingragjöf (ég mjólkaði mig) fyrst um sinn til að skemma ekki fyrir brjóstgjöfinni. En þegar hún var ca. 2-3 vikna fór fingragjöfin að ganga illa Þá ákvað ég að hætta barningnum og við gáfum henni pela (brjóstamjólk). Það gekk vel í fyrstu en svo fór hún að klemma túttuna. Svo þegar hún var mánaðargömul small hún á brjóstið en það entist ekki lengi því hún tók vitlaust og ég fékk þvílík sár og stíflur og svo minnkaði mjólkin um helming. Eftir viku strögl þá vildi litla mig ekki lengur. Þannig að við tókum upp pelann á ný og það er enn vesen. Hún drekkur aðeins útafliggjandi og helst ef hún er alveg að sofna eða vakna. Við erum að gefa henni á 3-4 tíma fresti. Það fer alveg lágmark 1 klukkutími í hverja gjöf og ég nenni ekki að fara neitt nema í göngutúra með litluna því ég dauðskammast mín fyrir þetta. Svo núna þegar litlan er 3 og 1/2 mánaða erum við komin í þrot. Erum við að gera eitthvað vitlaust? Ég talaði við hjúkku áðan á heilsugæslunni og hún sagði mér að prufa að gefa henni 2-3 pela af þurrmjólk til að ath. hvort það sé mjólkin sem er vandamálið. En ég vil ekki gera það (langar að hafa hana á minni mjólk til allavega 1 árs). Hvað finnst ykkur?

Með fyrirfram þökk. Mjaltamamman.

 


Sæl og blessuð Mjaltamamma!

Mér finnst þú hafa lagt ótrúlega mikið á þig til að halda brjóstagjöfinni gangandi svo lengi. Þetta er mjög erfitt þegar börn eru í vandræðum með sogið. Það vantar svolítið upplýsingar um hvernig barnið þyngist og þrífst. Það skiptir máli upp á hversu margar gjafir barnið þarf. En eins og vandamálið er fram sett get ég aðeins ráðlagt þér að halda áfram að mjólka þig reglulega og gefa eins og þér finnst það ganga best. Síðan að reyna reglulega að gefa brjóstið beint 1-2 sinnum á dag helst með hjálparbrjósti. Að sjálfsögðu er það ekki mjólkin sem er vandamálið og það væri frábært ef þú gætir haldið áfram að mjólka henni til eins árs.

Gangi þér sem allra best!
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. nóvember 2009

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.