Glucophage og brjóstagjöf

23.03.2013
Sæl.
Ég er með 3ja mánaða barnið mitt eingöngu á brjósti og hef verið að taka lyfið Glucophage (metformin). Tók það alla meðgönguna og hef verið að taka núna á brjóstagjöfinni samkvæmt ráðleggingum frá sykursýkislækni. Ég hitti heimilislækninn minn í vikunni sem fannst undarlegt að ég væri að taka þetta lyf með barnið á brjósti svo ég fór að hafa áhyggjur. Er óhætt að taka þetta lyf með barn á brjósti eða á ég að hætta brjóstagjöf frekar?
Sæl
Þegar kona tekur lyf á meðgöngu og í brjóstagjöf þarf alltaf að vega og meta kosti þess og galla. Margar konur taka Glucophage á meðgöngu og eru kostir þess fyrir móður og barn taldir vega upp á móti mögulegri áhættu fyrir barnið. Í brjóstagjöf er sama uppá teningnum, kostir fyrir konuna eru meiri en mögleg áhrif á barnið. Vitað er að Glucophage finnst í brjóstamjólk en er ekki vitað til að það hafi alvarleg áhrif á nýburann. Í þínu tilfelli myndi ég mæla með að þú hafir barnið áfram á brjósti. Mjólkin þín er mun betri kostur fyrir barnið en þurrmjólk þó svo þú takir Glucophage.
Gangi þér vel með áframhaldandi brjóstagjöf


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
23. mars 2013