Gos og brjóstagjöf

26.09.2009

Takk fyrir frábæran vef! Ég las það hér á vefnum að það væri allt í lagi að drekka gos í brjóstagjöf. Ég byrjaði að drekka gos þegar barnið var 3ja vikna gamalt og þá fór það að reka við með svo hræðilegri lykt. Ég var dálitla stund að átta mig á að þetta tengdist gosinu, en ef ég drekk ekki gos þá hættir lyktin. Þetta er leiðinlegt því ég hef aldrei haft eins mikla goslöngun eins og nú. Ég drakk ekki meira en 2 glös af gosi. Þetta gildir líka um Kristal. Nú þegar ég er hætt að drekka gos segja allir að þeir muni núna að maður megi ekki drekka gos á meðgöngunni, það hafi alltaf verið bannað. Er þetta vandamál þekkt eða er þetta bara einstakt tilfelli? Er eitthvað að þegar það kemur svona hræðilega vond lykt af prumpinu? Þarf ég að sleppa gosi alla brjóstagjöfina, eða er þetta bara smá tímabil (þetta lagist þegar þarmarnir þroskast meira)?

Sæl og blessuð!

Þér er alveg óhætt að drekka gos og hvað annað sem þér dettur í hug. Vond lykt af vindgangi barna er svolítið breytileg frá degi til dags en hún verður aldrei neitt sem kallast góð. Ég veit ekki um hvort bannað sé að drekka gos á meðgöngu. Ég hef aldrei heyrt það. Það er allavega ekki bannað í brjóstagjöf. Gos er bara vökvi með loftbólum.Loftbólur fara ekki í heilu lagi út í blóðið, yfir í mjólkina og þaðan til barnsins. Það er líffræðilega ómögulegt. Kannski tengjast þessar breytingar sem þú finnur fyrir hjá barninu einhverju í gjafamynstrinu. Gangi þér vel.

Katrín Edda Magnúsdóttir 
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi 
26. september 2009