Grænar hægðir

01.03.2009

Góðan daginn!

Ég sé að það hafa nokkrir sent inn fyrirspurnir um grænar hægðir nýfæddra barna. Sonur minn hefur kúkað grænu nokkrum sinnum og þegar ég spurði út í það í ungbarnaeftirlitinu hér í Svíþjóð fékk ég allt önnur svör en á vefnum. Samkvæmt hjúkrunarkonunni okkar benda grænar hægðir til þess að börnin drekka meira en þau þurfa á að halda og mjólkin renni meira og minna beint í gegnum magann án þess að unnið sé úr henni. Semsagt öfugt við það sem er sagt hér! Mér finnst sú skýring mjög líkleg í okkar tilviki þar sem ég er sjaldan hissa þegar ég sé grænt í bleyjunni. Það er yfirleitt þegar stráksinn hefur hangið á brjóstinu og drukkið yfir sig. Vildi bara benda á þetta án þess að ég viti hvort þetta er algilt. Getur verið gott fyrir mæður sem sjá grænt að vita að kannski eru börnin þeirra alveg að fá nóg af mjólk. Kannski of mikið meira að segja.


 

Sæl og blessuð!

Almenna reglan er sú að litur hægða barna sem eru eingöngu á brjósti skiptir engu máli. Það er sú hugsun sem áhersla er lögð á að sé ríkjandi. Það eimir nefnilega enn af eldgamalli hugsun um að grænar hægðir merki að barn svelti. Þetta er að sjálfsögðu búið að eyðileggja brjóstagjafir ótölulega margra kvenna með fullgóða mjólkurframleiðslu.

Þetta er samt rétt að vissu leyti hjá sænska hjúkrunarfræðingnum. Ofgnótt mjólkur og þá einkum og sér í lagi of hátt hlutfall formjólkur á kostnað eftirmjólkur er líklegri til að valda grænum lit á hægðum. Stöku sinnum getur það farið út í öfgar og þá þarf að laga það.

En þetta gæti kannski verið góð leið til að losna við gömlu mýtuna. Það er spurning. Það er jú búið að reyna ýmislegt annað.

Bestu kveðjur.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. mars 2009.