Grænar hægðir hjá brjóstabarni

08.06.2005

Heilar og sælar!

Takk fyrir frábæran vef. Það er eitt sem ég er að velta fyrir mér og það eru hægðirnar hjá litlu stelpunni minni. Hún er orðin 9 vikna og er eingöngu á brjósti. Hún dafnar vel, en núna undanfarið kannski síðustu 2 vikur hafa hægðirnar stundum verið grænar. Mér langaði bara að vita hvort það sé alveg eðlilegt?

......................................................................

Sæl og blessuð!

Þú getur verið alveg róleg. Barn sem er eingöngu á brjósti og dafnar vel má hafa allskonar hægðir. Þær mega vera í flestum litbrigðum nema ef mann grunar blóð í hægðum. Þær breytast líka oft í þéttleika og lykt. Þetta tengist oft því sem mamma er að borða og er gott merki um eðlilega meltingu. Brjóstabörn fá jú svolítið mismunandi efni gegnum mjólkina eftir því hvað mamma borðar og þau melta það náttúrlega svolítið mismunandi. Börn á þurrmjólk fá hins vegar alltaf nákvæmlega eins næringu og hafa því alltaf nákvæmlega eins hægðir. Grænt í hægðum brjóstabarna hefur stundum verið tengt bætiefnum (vítamínpillum) eða grænmeti.

Vona að svona vel gangi áfram hjá þér.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. júní 2005.