Spurt og svarað

26. mars 2008

Brotinn kvikasilfurshitamælir

Sælar kæru ljósmæður!

Ég lenti í því óhappi að brjóta hitamæli. Þó að maðurinn minn hafi verið svo góður að eyða mörgum tímum á baðherberginu að ná upp kvikasilfrinu og þrífa, finnst mér eins og það sé allt út í þessu eitri og losna ekki við tilhugsunina um að hafa eitrað fyrir fóstrinu og nú sé allt ónýtt. Ég er ekki komin nema 10 vikur og veit að þetta er viðkvæmt tímabil. Er nokkur leið að vita hvort eða hversu mikill skaði sé skeður fyrr en barnið er fætt, ef meðgangan nær þá svo langt?

Með fyrirfram þökk, klaufamamman.


Sæl og blessuð!

Þegar kvikasilfurmælir brotnar er mikilvægt að þrífa vel upp brotin og kvikasilfrið eins og maðurinn þinn hefur gert. Mesta hættan er þegar ekki er vel þrifið, t.d. þegar kvikasilfurmælir brotnar án þess að fólk viti af því. Samkvæmt þeim heimildum sem ég fann þá eru ekki miklar líkur á því að það geti skaðað heilsu fólks þegar einn kvikasilfurhitamælir brotnar en það er þó mikilvægt að þrífa vel upp brotin og kvikasilfrið til að losna við efnið sem smám saman gufar upp og getur valdið eitrun. Það eru þó dæmi um að lítil börn hafi veikst eftir að kvikasilfurmælir brotnaði og kvikasilfrið síaðist ofan í teppi þar sem barnið var.

Í bæklingnum Mercury Thermometers and Your Family’s Health eru nánari upplýsingar og fínar leiðbeiningar um hvernig á bregðast við þegar kvikasilfurmælir brotnar. Þar er t.d. minnst á það að ekki eigi að nota ryksugu til að hreinsa upp brotinn mæli því hitinn geti aukið uppgufun auk þess sem ryksugan mengast. Það ætti heldur ekki að nota sóp því hann þyrlar upp og mengast sömuleiðis. Það er mikilvægt að lofta vel út og lækka hitann í herberginu til að minnka uppgufun kvikasilfursins. Eins er mikilvægt að fólk sé ekki að óþörfu nálægt brotna mælinum og sá sem hreinsar þarf að verja sig eins vel og hægt er. Að lokum er mikilvægt að ganga vel frá brotunum og kvikasilfrinu í lokað ílát og fara með það í Sorpu.

Kvikasilfur getur vissulega borist yfir fylgjuna til barnsins og þess vegna er konum einmitt ráðlagt að neyta ekki sjávaraafurða sem innihalda kvikasilfur í miklum mæli. Mér sýnist að þið hafið brugðist rétt við þessu og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fann þá er afar ósennilegt að þetta hafi valdið barninu þínu einhverjum skaða.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. mars 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.