Spurt og svarað

29. ágúst 2010

Grænar hægðir og froða

Sæl!

Ég á 3ja mánaða gamlan dreng sem ég er eingöngu með á brjósti. Það hefur gengið ágætlega með brjóstagjöfina en reyndar vorum við á tímabili að basla við of hratt flæði. Núna virðist hann ráða betur við flæðið en ég þarf samt stundum að passa gjafastellinguna (gefa liggjandi á bakinu með hann ofan á mér). Hann drekkur einu sinni yfir nóttina (nóttin er 21-08) og á daginn á 2-3ja tíma fresti. Samtals um 7 sinnum á sólarhring. Hann drekkur yfirleitt bara annað brjóstið í gjöf. Nýlega fóru hægðirnar að breytast hjá honum. Fyrst fór að koma grænt í eina og eina bleiu en núna eru allar bleiur grænar (mörgum sinnum á dag) froðukenndar og það er mikill vindgangur. Einnig er meiri lykt af hægðunum en áður, súr lykt. Hann er stundum pirraður á brjóstinu, rífur sig af, kvartar og grætur stundum sárt. Mér finnst þetta öðruvísi pirringur, núna rífur hann sig af ýmist í byrjun gjafar eða þegar vel er liðið á gjöfina. Hann hefur líka verið að sofa mikið minna, sefur stutta lúra í einu og þarf mikla aðstoð við að sofna. Hann er fæddur stór, þyngdist mjög mikið í fyrstu en nú hefur aðeins hægt á því, farið niður um eina línu á kúrfunni. Getur verið að hann sé með formjólkurkveisu? Eða mjólkuróþol?Hverjar eru ráðleggingarnar sé um formjólkurkveisu að ræða?

Kv. Sæunn.

 


Sæl og blessuð Sæunn!

Þetta hljómar vissulega líkt og um formjólkurkveisu sé að ræða. Það er reyndar oft fylgifiskur þegar um of hratt flæði er að ræða. Það er góð byrjun að þú hefur verið að taka á því vandamáli en betur má ef duga skal. Það er mikilvægt að halda áfram að gefa aðeins annað brjóstið í gjöf. Síðan þarftu að gefa sama brjóstið tvær gjafir í röð. Þetta þarftu að gera tvisvar á dag þannig að hvort brjóst um sig sé gefið tvær gjafir í röð. Svo þarf líka að gæta að mjólkurleka. Hann verður að stoppa með öllum ráðum. Sérstaklega er mikilvægt að stoppa leka í gjöf úr hinu brjóstinu. Það þarf stundum að æfa upp þá tækni. Nú það má ekkert mjólka aukalega úr brjóstunum á meðan þú nærð tökum á þessu nema þá það sem fer ofan í barnið samdægurs.
Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. ágúst 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.