Spurt og svarað

16. janúar 2011

Grænar hægðir og sveppir

Sælar og bestu þakkir fyrir frábæran vef!
 Spurning mín er tvíþætt og ég biðst afsökunar á langlokunni. Þannig er mál með vexti að ég á stúlku sem er 5 mánaða og 13 daga. Frá því að hún var 2 vikna höfum við verið að berjast við síendurteknar sveppasýkingar. Hún hefur fengið Mycostatin og ég líka auk þess sem ég hef fengið Diflucan (þrisvar eina töflu síðast á aðfangadag) og notað Canesten krem. Ég hef einnig fylgt ráðleggingum frá lækni varðandi hreinlæti. Í dag finn ég að sveppirnir eru mættir aftur og sá bletti í munninum á henni. Ég er hætt að borða sykur (einhver benti mér á það). Er eitthvað annað náttúrulegt sem þið gætuð bent mér á að prufa? Mig hryllir við að byrja enn eina ferðina á að gefa henni lyf. Brjóstagjöfin hefur þrátt fyrir þetta gegnið vel og fyrstu þrjá mánuðina þyngdist hún mjög vel. Svo kom tímabil sem ég var ofboðslega aum í geirvörtunum. Á svipuðum tíma komu jól og smá áfall í fjölskyldu minni. Á meðan er hugsanlegt að ég hafi ekki gefið henni eins oft og áður. Hún er afskaplega vær og góð. Hinsvegar fór hún að drekka oftar á næturnar. Svo fórum við í 5 mánaða skoðun þar sem kom í ljós að hún hafði dottið svolítið niður í kúrfunni. Mér var ráðlagt að gefa henni ábót á kvöldin. Daginn eftir fór hún að kúka grænu og er með mikið loft. Hún bæði ropar og prumpar mikið sem hún er ekki vön. Ég á erfitt með að átta mig á hvort hún er að klára úr brjóstinu eða ekki. Ég reyni að hafa hana eins lengi á og ég get. Ég heyri að hún kyngir mikið fyrst og svo hættir hún. Eitthvað hefur breyst á síðustu vikum sem ég átta mig ekki á hvað er. Þetta hefur alltaf bara verið þannig að ég gef henni þegar hún biður um, annað brjóstið í gjöf. Ég er búin að prufa að gefa henni ábót en hún fúlsaði alveg við því. Ég prufaði líka að gefa henni svolítinn graut og henni líkaði það vel. Á sama tíma hef ég verið að bjóða henni brjóstið oftar til að auka framleiðsluna. Ég er alveg miður mín að geta ekki klárað þennan litla tíma með hana eingöngu á brjósti. Mér finnst hún of lítil fyrir grautinn. Svo langaði mig að lofa henni að hætta sjálf eins og eldri stelpan mín gerði. Getið þið gefið mér einhver ráð. Ég á að baki eina farsæla brjóstagjöf og hún var eingöngu á brjósti til 6,5 mánaða. Þá fengum við líka sveppi sem fóru á u.þ.b. 3 vikum.
Með fyrirfram þökk,Sveppurinn.

Sæl og blessuð Sveppur!
Það kemur fyrir að sveppir verða þrálátir og þá er mikilvægt að grípa inn í með réttum lyfjum og með réttum skömmtum. Það eru til náttúrulegar aðferðir af mörgum gerðum en ég er ekki viss um að það myndi hjálpa þér núna. Ég mæli með að þú fáir vandaða lyfjameðferð fyrir ykkur báðar og það er ekkert sem barnið á að taka inn. 
Varðandi gjafavandamálið þá sýnist mér gjafamynstrið þitt vera í lagi og það er gott að þú reynir að gefa eins lengi og þú getur. Grænu hægðirnar ættu að hverfa fljótlega. Það er nánast alltaf svo að brjóstabörn beygja út að þurrmjólkurbarnakúrfunni um 3ja mánaða aldurinn því þeirra kúrfa er öðruvísi. Það krefst ekki ábótar. En stundum er gripið inn í með því að breyta gjafamynstrinu og mig grunar að þú hafir gert það óafvitandi. Það er líka stundum svo að annað fæði kemur eilítið fyrr inn hjá sumum börnum og eilítið seinna hjá öðrum þannig að þú getur haldið grautargjöfinni áfram ef þú vilt. Ég hef fulla trú á að þú klárir þína brjóstagjöf á þínum forsendum.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16.janúar 2011.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.