Spurt og svarað

09. október 2005

Grætur þegar ég býð honum brjóstið ...

Sælar!

Ég er í vandræðum með litla drenginn minn, 3ja mánaða. Ég er eingöngu með hann á brjósti og hefur gengið mjög vel þar til fyrir rúmlega viku síðan. Þá fór að bera á því að hann grætur í hvert sinn sem ég býð honum brjóstið og vill alls ekki sjúga þó hann sé svangur. Ég hef gengið um gólf með hann og reynt að láta hann sjúga og stundum gengur það og stundum ekki. Svo hef ég látið hann drekka hálfsofandi og það gengur best. Hann sýgur svo mikið loft með nú orðið þegar hann drekkur og þá svelgist honum mjög oft á og ég held að það sé vandamálið. Ég held að hann sé orðinn hvekktur á því og vilji þess vegna ekki sjúga. En það gengur vel ef hann er hálfsofandi, þá er hann rólegur og sýgur ekki eins mikið loft. En ég var að lesa að þetta eigi að ganga yfir á u.þ.b. viku eða innan við það en ég er orðin svolítið áhyggjufull því þetta er búið að standa það lengi. Og mig langar alls ekki til að hætta með hann á brjósti en er líka hrædd við að missa mjólkina smám saman ef þetta heldur svona áfram lengi því hann tæmir brjóstin ekki eins vel og oft þegar hann er hálfsofandi. En hann er 3ja mánaða og rúmlega 7 kg svo hann er stór og sterkur strákur.

Kveðja, Guðrún.

..................................................................................

Sæl og blessuð Guðrún!

Vandamálið sem þú ert að lýsa líkist helst of hröðu losunarviðbragði. Þetta hefur oft verið rætt á þessari síðu en það sem er mikilvægast fyrir þig er að læra að hægja á flæðinu í byrjun gjafarinnar. Þú ert búin að finna út aðferðina að gefa barninu þegar það er hálfsofandi, en það getur skipt sköpum ef þú ert útafliggjandi. Það er líka sniðugt að gefa með barnið liggjandi ofan á sér. Best er að læra tæknina við að klípa saman brjóstið rétt fyrir utan varir barnsins sitt hvoru megin. T.d. geturðu haft þumal efri varar megin og hina puttana neðri varar megin. Þú getur þurft að klípa nokkuð þétt saman og þú gerir það í nokkrar mínútur á meðan hraðasta losunin fer fram. Þessa aðferð geturðu notað hvar og hvenær sem er en síður hinar aðferðirnar.
Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af að hann verði hvekktur við að gleypa loft. Það truflar hann ekkert. Það sem hvekkir hann er þegar honum svelgist á. Passaðu þig á að gera ekki of mikið veður út af því þannig að honum bregði eða verði hræddur. Reistu hann rólega upp, strjúktu mjúklega bakið og talað róandi til hans. Haltu svo gjöfinni áfram eins fljótt og unnt er. Það er ekki nokkur vottur á neinu sem ætti að geta orðið til að þú þyrftir að hætta með hann á brjósti eða að mjólkin minnkaði. Hann drekkur nákvæmlega það magn sem hann þarf hvort sem hann er hálfsofandi eða ekki. 

Með óskum um áframhaldandi gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. október 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.