Grátur við brjóstagjöf

10.11.2004

Sælar og takk fyrir góðan vef. 

Ég og 8 vikna dóttir mín eigum við smá vandamál að stríða.  Málið er að mjög oft í miðri brjóstgjöf fer hún að hágráta og neitar að fara á brjóstið aftur, hún er því sársvöng og pirruð en um leið og ég ætla að leggja hana aftur byrjar gráturinn á ný.  Vert er að taka það fram að hún er ekki að þyngjast mikið (um 110 gröm á viku og er verið að fylgjast með því).  Ég ræddi þetta við brjóstagjafaráðgjafa sem taldi að sennilega væri ég að mjólka mikið, sem ég tel vera rétt því hún sleppir alltaf þegar gusan er sem mest.  Heilsugæslan segir hins vegar að hún ætti þá að vera að þyngjast meira.  Hún telur að stelpan sé magaveik þar sem þetta gerist alltaf á kvöldin (þó gerist þetta líka á miðjum degi og jafnvel á morgnana en aldrei á næturnar).  Ég hef reynt að skipta um stellingu, halla mér aftur eða liggja til þess að hún fái ekki gusuna uppí sig en ekkert gengur.  Ég er því alveg að gefast upp á þessu og hef prófað að gefa henni ábót sem hefur ekki virkað því hún kúgast bara af henni.

Vona að þið getið hjálpað mér áður en geðheilsan fer.

Kær kveðja, Halldóra.

.................................................................................


Sæl og blessuð Halldóra.

Það er því miður dálítið erfitt að lesa út úr bréfinu þínu hvað gæti verið að raska þinni brjóstagjöf. En ég reyni að geta í eyðurnar eins og vísbendingar leiða mig. Ég vona bara að ég sé ekki að misskilja eitthvað.

Oft eru vandamál þar sem börn láta illa við brjóstið tengd gjafamynstri. Þú gefur ekkert upp um gjafamynstur þannig að ég veit ekki hvað „í miðri gjöf“ þýðir. Þú segir að hún sleppi þegar gusan er mest þannig að ég gef mér að hún sé í stuttum gjöfum og þetta sé eftir ca. 5-10 mín. Barnið hágrætur og neitar að fara aftur á brjóst bendir til að það sé eitthvað sem trufli það verulega. Það gæti verið:

  • Magaverkir - afar ólíklegt nema barnið sé að fá þurrmjólk á hverjum degi sem kemur ekki fram.
  • Vindverkir - mögulegt ef mikill gleypugangur er í barni. Við vindverkjum er til auðvelt ráð en það er að taka barnið af brjósti eftir u.þ.b. 1 mínútna sog og láta það ropa.
  • Hratt mjólkurlosunarviðbragð-  kemur til greina. Hratt losunarviðbragð veldur vandamálum hjá sumum börnum. Þau bregðast misjafnlega við því að fá mjög hratt flæði upp í sig. Sum setja tunguna fyrir og fara að særa vörtur móður sinnar, sum smella tungunni svo heyrist langar leiðir, sum losa gripið og láta mjólina leka út um munnvikið og önnur sleppa takinu og mótmæla harðlega. Þetta síðastnefnda finnst mér geta átt við í þínu tilfelli.
  • Of lítil mjólk - mögulegt en þó ólíklegt því barn neitar að taka brjóstið aftur. Þótt mjólkurlosunarviðbragð sé hratt þá er ekkert samasemmerki með því og mikilli mjólk. Ég tel að þú sért með næga mjólk og barnið að þyngjast nægilega en það er eins og er í lágmarksþyngdaraukningu. Þyngdaraukning er þó oft sveiflukennd hjá brjóstabörnum.
  • Gjöf lokið - þá ætti barnið ekki að gráta.

Það að vandamálið geri helst vart við sig á kvöldin getur bent til að það sé eitthvað álagstengt. Þá meina ég að eitthvert áreiti úr umhverfinu sé að auka á vandann hvort sem það er stress, pirringur, þreyta, hávaði eða hvað. Hugsaðu til næturgjafanna sem ganga svo vel. Hvað er það við þær sem er öðruvísi og þú getur líkt eftir á þessum erfiða tíma.
Nú, þú hefur reynt ráð sem eru gefin við hröðu flæði eins og að halla þér aftur í gjöfum og liggja út af. Þetta er gert til að láta þyngdaraflið hægja á flæðinu. Þá er barnið að sjúga mjólkina „upp“ úr brjóstinu. Þér er óhætt að reyna þetta áfram. Annað ráð gefst líka vel en það er að klípa saman brjóstið rétt aftan við varir barnsins. Þú getur haft þumal öðrum megin og hina puttana á móti og tekið vel þétt um brjóstið. Þú ert náttúrlega að gera rennslið tregara og klemma saman mjólkurgangana að hluta en það er einmitt tilgangurinn. Þessu klipi er haldið þar til aðalflæðið er búið eða u.þ.b. 1-3 mín. Sumar konur finna það. Barn sem búið er að hvekkjast á hröðu flæði getur verið svolítið tortryggið fyrstu dagana og rífur sig gjarnan af í óþarfa en þau eru tilbúnari að reyna aftur þegar aldrei spýtist upp í þau.

Með von um að betur fari að ganga,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. nóvember 2004.