Grautur

20.10.2008

Halló og takk fyrir góðan vef.

Ég var í dag með dóttur mína sem er rúmlega 3ja mánaða í skoðun. Ég nefndi það bæði við lækninn og hjúkrunarfræðing að mér fyndist hún, dóttir mín, oft verða svolítið pirruð á kvöldin og vilja fara mjög oft og ört á brjóstið. Þá nefndu þau bæði að ég ætti kannski að fara að prófa að gefa henni smávegis graut. Ég tek það fram að hún dafnar vel, fæddist 3.845 grömm en er orðin 6.690 grömm og eingöngu á brjósti fram að þessu. Mig langaði bara til að fá annað álit hjá ykkur í sambandi við þetta með grautinn og einnig þá að spyrja hvenær dags væri best að gefa henni hann.

Með fyrirfram þökk.


Sæl!

Það er alltaf betra að meta börnin með því hitta þau og vigta og setja þau inn í vaxtarkúrfuna og skoða hvernig vaxtarkúrfan hefur verið frá fæðingu. Samkvæmt því sem þú segir með fæðingarþyngdina og hvað hún var þegar hún var vigtuð síðast þá sýnist mér að hún þyngist vel miðað við aldur. Börnin taka vaxtakipp á ákveðnum tímabilum – oft talað um á 6 vikna fresti. Þegar börnin fara í vaxtarkipp þá vilja þau vera oft á brjósti – einnig eru mörg börn sem vilja vera oft á brjósti á kvöldin, sem er álitið eðlilegt en ekki að þau þurfi graut. Oftast er grautur ekki ráðlagður fyrr en í fyrsta lagi við 4 til 5 mánaða aldur og helst ekki fyrr en við 6 mánaða ef börnin þyngjast eðlilega á brjóstamjólkinni.

Gangi þér vel með stúlkuna þína.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. október 2008.