Grautur?

07.08.2010

Hæ og takk fyrir frábæran vef sem hefur nýst mér vel!

Ég er með rúmlega 4 mánaða strák sem er farinn að drekka oftar en hann gerði áður. Það líða nánast aldrei lengur en hámark 4 tímar á milli gjafa á nóttunni. Yfirleitt drekkur hann á 2-3 tíma fresti allan sólarhringinn. Mér tekst sjaldan að láta hann drekka lengur en 10 mín í einu, oftast er það bara í 4-5 mínútur. Ef ég reyni að láta hann drekka lengur en hann vill ælir hann oftast eftir gjöfina. Ég er að spá í hvað sé best að gera? Á ég að prófa að gefa graut? Hvernig er best að reyna að láta líða lengur á milli gjafa? Í síðustu skoðun sem var 3 mánaða þá var hann að þyngjast vel og fylgdi kúrfunni.

Takk.


 

Sæl og blessuð!

Gjafamynstur barna eiga það til að breytast fram og til baka. Eins og lýsir þessu er hann í mjög eðlilegu gjafamynstri. Ég veit náttúrlega ekki hvernig mynstrið hans var áður en þetta er greinilega svona sem hann þarf að hafa það núna til að stækka og þroskast vel. Því það gengur greinilega vel. Það ætti ekki að vera keppikefli fyrir þig að breyta því. Það ætti ekki að vera keppikefli að gefa eins fáar gjafir og hægt er heldur að gefa eins oft og barnið þarfnast. Nei, þú átt ekki að gefa graut. Þú gætir reynt að gefa bæði brjóstin allavega nokkrum sinnum á dag í nokkra daga en ég er ekki viss um að hann ráði við stærri gjafir eins og er. Þú ert jú búin að komast að því. Það kemur kannski seinna.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. ágúst 2010.