Gubbupest og brjóstagjöf

22.12.2004

Er óhætt að gefa barni brjóst ef maður er með gubbupest?

...................................................................

Sæl og blessuð.

Já, það er meira en óhætt að gefa barni brjóst þegar maður er með gubbupest. Það er alveg nauðsynlegt. Ekki vill maður lenda í brjóstavandamálum ofan í gubbupestina. Og sýkillinn sem veldur pestinni er löngu kominn til barnsins. Hann er kominn til barnsins áður en maður verður veikur og væntanlega eru líka mótefni gegn pestinni byrjuð að berast til barnsins með móðurmjólkinni. Svo það er mjög mikilvægt að gefa barninu brjóst til að verja það. Ef barnið veikist verður það mjög líklega verulega væg útgáfa af pestinni.
Það er hins vegar nauðsynlegt að drekka vel þegar maður er með gubbupest og maður þarf að drekka enn meira þegar maður er bæði með gubbupest og barn á brjósti.

Bestu óskir um góðan bata,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. desember 2004.