Gul mjólk úr öðru og glær úr hinu

05.11.2006

Úr öðru brjóstinu streymir gul mjólk og úr hinu glær. Er þetta eðlilegt og hvað þýða þessi litablæbrigði?

Takk fyrir.

Kveðja, Ásta.


Sæl og blessuð Ásta.

Það er náttúrlega auðveldast að segja að það hafi verið mislangt frá því brjóstin voru sogin (mjólkuð). Úr því sem lengra var síðan var sogið kemur glærari mjólk því þar er formjólkin ríkjandi og úr því brjósti sem styttra var frá því að var sogið komi feitari mjólk og hún er hvít eða gulleit. Ég held samt að meira búi undir hjá þér og að þú greinir þennan litamun almennt og yfirhöfuð. Það líka til skýring á því. Bæði brjóst sömu konunnar framleiða ekki eins mjólk. Brjóstin eru algerlega aðskildar einingar þannig að mjólk úr öðru brjóstinu getur aldrei flætt yfir í hitt. Þau geta líffræðilega séð ekki framleitt sama vökvann þótt auðvitað sé hann keimlíkur. Yfirleitt er þessi munur aðeins blæbrigðamunur og skiptir engu máli varðandi gjafamynstrið en stundum er munurinn það mikill að konur veita því sérstaka athygli. Ekkert til að hafa áhyggjur af. 

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. nóvember 2006.