27 vikur og of lítið barn

11.01.2008

Sæl!

Ég og konan vorum að koma úr sónar og fengum þær upplýsingar að tvíburarnir sem við eigum von á eru minni en meðalbörn. Ég hélt að það værin nú bara almennt svoleiðis með tvíbura en læknirinn vildi hitta okkur aftur eftir tvær vikur í stæð fjögurra til þess að fylgjast betur með þessu. Annar tvíburinn er um 10% minni en meðalbarn og hinn um 17% minni. Ég reyndi að spyrja konuna að því hvað þetta þýddi en fékk eiginlega bara það svar að það þyrfti að fylgjast betur með þessu. Getið þið því hjálpað mér og sagt mér hvað þetta þýðir? Eru börnin í hættu, er ástæða til þess að hafa áhyggjur, er eitthvað sem við getum gert til þess að ýta undir þroska/stærð barnanna og hvað ef að það kemur í ljós eftir næstu skoðun að þau eru bara of lítil ennþá, hvað gerist þá?  


Sæl!

Allar vaxtartöflur sem notaðar eru miðast við einbura, ekki eru til vaxtartöflur fyrir tvíbura. Almennt eru tvíburar minni en einburar og meiri  hætta á vaxtarseinkun hjá tvíburum, þess vegna er mælt með meira eftirliti með vexti hjá þeim. Fæðingarþyngd barna er mjög misjöfn og er eðlileg þyngd frá -24% frá meðallagi upp í + 24%. Ef við í sónar mælum börn minni en -18% er ráðlagt að fylgjast með vexti með sónarmælingum, ef börn mælast alltaf  t.d. -18%  og vaxa í þeirri kúrfu þá eru allir ánægðir, þá er vitað barnið vex á sínum hraða . Ef kona reykir þá eru meiri líkur á vaxtarseinkun, hár blóðþrýstingur getur líka haft áhrif og erfðir, ef þessir hlutir eru ekki til staðar þá getur konan gert lítið til að hafa áhrif á vöxt barnanna nema vera í góðri hvíld og lifa heilbrigðu lífi.

Kær kveðja,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreinardeildar LSH,
11. janúar 2008.