Gyllinæðar vesen :(

22.05.2008

Sko..

Ég átti dreng í fyrir fjórum vikum og fæðingin gekk vel en ég fékk mjög mikla gyllinæð eftir. Ég fékk stíla á fæðingardeildinni og fór svo í apótekið og keypti mér Proctosedyl stíla. Ég hef ekki þorað að nota þá reglulega vegna þess að á miðanum segir að lyfið berist í brjóstamjólk en að áhrif á barnið séu ólíkleg og að maður eigi að ráðfæra sig við lækni ef maður notar lyfið oftar en stöku sinnum meðan verið er með barn á brjósti.

Hvað segið þið? Er í lagi að nota stílana reglulega þó að maður sé með barn á brjósti?

Svo er annað, ég tók bara eftir því fyrir tveim dögum að ætti að geyma þá í ískáp. Eru þeir ónýtir ef að ég hef geymt þá í baðskápnum?

Með von um svör.

Kveðja, ég.


Sælar!

Þetta er það lyf sem ráðlagt hefur verið á meðgöngu og einnig eftir fæðingu - þó að mæður séu með barn á brjósti, svo ég held að þér sé óhætt að nota það áfram. Það er alltaf betra að geyma alla stíla í ískáp - en þeir eru ekki ónýtir - þó þeir séu um tíma í stofuhita.

Bestu kveðjur,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. maí 2008.