Spurt og svarað

01. október 2006

Hægt losunarviðbragð

Sælar

Mig langar að fá ráðleggingar varðandi brjóstagjöf 4. mánaðar gamallar dóttur minnar. Brjóstagjöfin hefur gengið eins og í sögu fyrstu mánuðina og hefur litla dúllan þyngst vel og haldið sinni kúrfu. Þó hef ég aldrei litið á mig sem mikla verðlaunakýr því það sem hefur truflað okkur mæðgur er hversu lengi mjólkin er að streyma til að byrja með (og þá sérstaklega öðrum megin) og þar sem stúlkan er frekar óþolinmóð þá veldur þetta miklum harmleik sem endar með því að hún vill bara alls ekki taka brjóstið - og þá hvorugt! Þessi mikla óþolinmæði stressar mig upp, þar sem hún grætur sárt við tilraunirnar og verður jafnvel brjáluð um leið og hún er lögð við brjóstið (eins og hún vilji bara alls ekki drekka) og ég upplifi eins og ég hafi bara alls ekki næga mjólk handa henni!  Einu ráðin sem hafa virkað hjá okkur er að plata hana með smá gjöf úr pela (þurrmjólk eða brjóstamjólk) en þá róast hún niður og seðjar mesta hungrið og pirringinn og endar með að taka brjóstið. Þessi læti eru verst á kvöldin og þegar hún er orðin þreytt og pirruð en á öðrum tímum gengur yfirleitt vel að gefa henni jafnvel þó ég finni að losunarviðbragðið er mjög hægt.

Er eitthvað sem ég get gert til að hjálpa til við gjafirnar? Ég hef notað hitameðferðir (heita sturtu, hitapoka), mjólkuraukandi te og drukkið mikið vatn til að eiga örugglega nóg en ef ég reyni að mjólka mig þá sannast það að ég er engin verðlaunakýr (er mjög ánægð ef ég næ 40- 60ml og þá jafnvel úr báðum brjóstunum). Er mögulegt að hún sé bara ekki að fá nóg og þurfi ábót á kvöldin þar sem hún sefur oft 3-4 tíma í einu og langur tími líður á milli gjafa!

Kær kveðja frá kú sem vill komast í verðlaunasæti og ætlar ekki að gefast upp!!!Sæl og blessuð frú Kú.

Það er nú ekkert endilega neitt markmið hjá okkur konunum að mjólka eins og kýr. Þær mjólka allt öðruvísi mjólk en við og sú mjólk hentar vel þeirra afkvæmum en ekki okkar. Vandamál þitt byggist sennilega á spennu í upphafi gjafar. Þetta kemur fyrir flestar konur einhvern tíma og flestar finna sér einhverja leið til að yfirvinna það. Þetta getur verið erfitt að eiga við sérstaklega ef börn eru óþolinmóð og gefa engan sjéns. Losunarviðbragðið er mislengi að fara af stað hjá konum og það er erfitt að stjórna því. Það getur þó hjálpað að vera í góðri slökun þegar gjöf er að byrja. Ég ráðlegg þér að gera átak í að finna slökunaraðferð sem hentar þér. Það er misjafnt hvað hentar hverjum og einum svo þú getur þurft að leita. Róandi tónlist, upplestur á spólu, jógaíhugun eru bara dæmi um það sem gæti virkað. Svo gæti hjálpað að koma mjólkurrennslinu sjálf af stað áður en barnið kemur að brjóstinu. Það þýðir að þú mjólkar fremst úr brjóstinu með tveimur puttum. Þú getur þurft að kreista í 2-4 mínútur en þú finnur þegar eitthvað gerist og þá er rétti tíminn til að leggja barnið við brjóstið. Það gæti líka verið góð hugmynd fyrir þig á kvöldin þegar erfiður tími nálgast að fara með litlu í róandi bað og þegar vel fer um ykkur og þið slakið báðar vel á að bjóða henni þá brjóstið í baðinu.  

Nei, það er ekkert sem bendir til að þú hafir ekki næga mjólk. Þvert á móti bendir allt til að þú hafir alveg nóg. Reyndu að forðast að lenda i slagsmálum. Ef hún fer að láta öllum illum látum þá er tilrauninni hætt og farið að gera eitthvað annað. Mér líst mjög vel á að þú ætlir ekki að gefast upp og þér til huggunar er líklegt að þetta sé aðeins tímabil sem þið eru að fara í gegnum.  

Með von um að ráðin hjálpi.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. október 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.